Samkeppni og markaðsmöguleikar

Felur hugmyndin í sér gott viðskiptatækifæri?

Nýnæmið eitt og sér getur verið marklaust ef hugmyndin á enga möguleika á markaði. Fæstir kaupa vöru einungis út á það að hún sé uppfinning. Flestir kaupa hana eingöngu ef hún kemur þeim að gagni og þeir taka hana fram yfir samkeppnisvörur.

Þess vegna þarf að sannfæra fyrirtæki og fjárfesta um að hugmyndin sé vænlegt viðskiptatækifæri með eins fáum áhættuþáttum og mögulegt er, ef vekja á áhuga þeirra á henni. Þeir þurfa að sjá í henni næga gróðamöguleika til þess að fjárfesting þeirra skili sér margfalt til baka.

Viðskiptalegur hugsunarháttur dregur einnig úr fjárhagslegri áhættu ykkar sjálfra, sem annars eykst eftir því sem hugmyndin er þróuð frekar.

Samkeppni

Þegar hugsað er um markaðsmöguleika hugmyndarinnar er nauðsynlegt að hugleiða hvernig hún muni standast samkeppni.

Einnig er nauðsynlegt að skoða samkeppni af annarri ástæðu. Ef hugmynd ykkar er algerlega ný eru kannski engar áreiðanlegar markaðsupplýsingar að hafa aðrar en þær sem finna má um samkeppnisvörur og -fyrirtæki.

Samkeppni á ekki einungis við vörur sem eru nákvæmlega eins og hugmynd ykkar. Hún á við allt það sem í dag er notað eða gert til að leysa þann vanda sem hugmynd ykkar tekst á við.

Ef hugmynd ykkar er til dæmis nýstárleg músagildra, á samkeppnin ekki einungis við um allar aðrar músagildrur, heldur þarf að taka með í reikninginn allar aðferðir sem notaðar eru til að losna við mýs, jafnvel ketti!

Venjulega er farið í gegnum eftirfarandi þrjú þrep til að meta samkeppni, nema að þið séuð þegar sérfræðingar á því sviði sem hugmynd ykkar snýst um.

1.   Hverjir eru samkeppnisaðilar ykkar?

Með aðstoð veraldarvefsins ætti ekki að vera erfitt að finna samkeppnisvörur og -tækni, hvar sem er í heiminum. Ekki líta fram hjá vöru aðeins vegna þess að hún er ekki seld á Íslandi. Markaðurinn er orðinn hnattrænn og vara, sem einn daginn er aðeins seld í einu landi, getur verið fáanleg út um allan heim nokkrum mánuðum síðar.

Skoðið einnig verslanir, vörulista, heildsölumarkaði o.s.frv., rétt eins og þegar leitað er að þekktri tækni. Lesið iðnaðartímarit og sækið vörusýningar til þess að komast að því hvað selst og hvað selst ekki og til þess að vita af kynningum á nýjum vörum.

Ræðið við fólk sem starfar í þeim atvinnugreinum sem tengjast hugmyndinni. Spyrjið um hvaða vörur og aðferðir það noti eða noti ekki og hvers vegna. (Auðvitað gáið þið að því að ljóstra ekki upp um hugmynd ykkar.) Sérstaklega gætu sérfræðingar, sem komnir eru á eftirlaun, lumað á dýrmætum upplýsingum sem þeir höfðu ekki leyfi til að láta í té meðan þeir voru starfandi. Þeir gætu einnig átt lausar stundir og haft áhuga á að taka þátt í verkefni ykkar ef þeim líst á það sem þið eruð að gera.

2.   Hversu mikil ógn stafar af þeim?

Þið þurfið að vita eins mikið og mögulegt er um sérhvert samkeppnisfyrirtæki. Ef fyrirtækið selur margar vörutegundir þurfið þið aðeins að líta á þær sem eru í samkeppni við hugmynd ykkar. Skoðið til dæmis:

 • Hversu mikið græðir fyrirtækið á þessum vörum?
 • Hvernig verðleggur það vörur sínar?
 • Hve oft endurbætir það vörur eða skiptir þeim út fyrir nýjar?
 • Hver er markaðshlutdeild þess og er hún vaxandi eða minnkandi?
 • Hvernig og hvar dreifir það vörum sínum?
 • Hversu víða auglýsir það vörur sínar og vörumerki?
 • Hversu traustur er tæknilegur bakgrunnur þess og hvernig þjónustar það þá sem keypt hafa vörur þess?
 • Hvert er orðspor þess meðal viðskiptavina og innan atvinnugreinarinnar?

Gáið að því að samkeppnishæfni fyrirtækis getur byggt meira á markaðssetningu en tækni. Því skyldi ekki vanmeta þá ógn sem stafað getur af tæknilega ófullkomnari vöru ef fyrirtækið, sem selur hana, hefur efni á að eyða miklu fé í markaðssetningu hennar.

3.   Getur hugmynd ykkar keppt við þá með árangri?

Aldrei er auðvelt að kynna nýja vöru vegna þess að þá er markaðurinn á valdi samkeppnisaðilanna. Þeir eru þekktir, reyndir og njóta kannski trausts, en vara ykkar er óþekkt stærð. Þið verðið að ígrunda vandlega hvort hugmynd ykkar er í alvöru nógu öflug til að taka til sín nægilega stóra sneið af markaðnum til þess að fyrirtæki eða fjárfestir geti litið á hana sem freistandi viðskiptatækifæri.

Þið gætuð meðal annars þurft að íhuga eftirfarandi spurningar:

 • Hefur einhver í raun og veru þörf fyrir vöru ykkar?

Vandamálið, sem uppfinning ykkar leysir, kann að hafa vakið áhuga ykkar, en á það við um nógu marga aðra? Ef ekki er markaðurinn kannski of lítill og of lítið upp úr honum að hafa til þess að taki því að sinna honum.

 • Hvar er besti markaðurinn fyrir vöru ykkar?

Svarið við þessari spurningu liggur sjaldnast eins ljóst fyrir og margir uppfinningamenn halda. Oft má færa sömu uppfinninguna út á marga vegu þannig að þið skuluð reyna að miða hana við göt á markaðnum, svið þar sem skortir upp á framboð eða samkeppni.

 • Hvaða markað er auðveldast að komast inn á?

Þegar nýrri vöru er hleypt af stokkunum verður að vera forgangsmál að lágmarka áhættu. Ef of dýrt er að komast inn á „óskamarkaðinn“ gæti verið snjallt að byrja annars staðar þar sem tilkostnaður er minni, jafnvel þótt gróðavonin sé minni. Velgengni á þeim markaði gæti síðar opnað dyr inn á gróðavænlegri markaði.

 • Hver er staða markaðarins sem fara skal inn á?

Er hann að vaxa eða minnka? Þið ættuð að draga við ykkur að fara inn á hnignandi markað nema þið teljið að vara ykkar geti hresst upp á hann. Eru fyrirsjáanlegar einhverjar tæknilegar, félagslegar, lögfræðilegar eða stjórnsýslulegar breytingar í náinni framtíð sem gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir ástand hans? 

 • Á hvaða verði gætuð þið þurft að selja vöruna?

Sé verðið á vöru ykkar í litlu samræmi við verð samkeppnisaðilanna gæti reynst erfitt að selja hana eða hafa eitthvað upp úr henni. Samkeppnisaðilar ykkar hafa lokið megninu af rannsóknarvinnu ykkar, þeir eru búnir að komast að því hvað markaðurinn er tilbúinn að borga.

 • Stenst vara ykkar staðla?

Flestar vörur sem selja á með lögmætum hætti, þurfa að uppfylla innlenda eða alþjóðlega staðla um öryggi, virkni o.s.frv. Það getur verið dýrt og langvinnt ferli að öðlast þá vottun sem til þarf svo að þið skuluð áður grennslast fyrir um hvers er þörf.