Fyrirframgreiðsla eða greiðslutrygging

Hluti af goðsögninni um uppfinningar er að sérhver uppfinningamaður eigi skilið að fá væna fyrirframgreiðslu frá fyrirtækinu. Slíkt er býsna ólíklegt, nema greitt sé fyrir eitthvert framlag til þróunar uppfinningarinnar sem fyrirtækið hefði þurft að borga fyrir hvort eð var.

Ef þið krefjist fyrirframgreiðslu eigið þið á hættu að spilla möguleikum ykkar til að ná samningi um nytjaleyfi.  Flest fyrirtæki líta svo á, með réttu, að umbun ykkar og þeirra geti ekki komið frá neinu öðru en sölunni á uppfinningu ykkar. Mörg smærri fyrirtæki geta einnig haldið því fram að kostnaðurinn vegna vöruþróunar uppfinningar ykkar sé alveg nógu stór biti og að þau hafi hreinlega ekki efni á fyrirframgreiðslu.

Til málamiðlunar mætti semja um tryggingu á mánaðarlegum lágmarkstekjum frá upphafi sem koma þá til lækkunar á þóknunargreiðslum síðar. Þetta ætti kannski að vera lágt hlutfall, segjum 25-30% af samþykktum greiðslum fyrir væntanlega sölu á ársgrunni. Jafnvel þótt þessar greiðslur byrji nokkrum mánuðum áður en framleiðsla vörunnar hefst skila þær sér fljótlega í gegnum þóknunina ef salan gengur eins og vænst var.

Uppkaup

Annar valkostur er að fyrirtæki bjóðist til að kaupa hugmyndina algerlega af ykkur fyrir ákveðna upphæð, í stað þess að greiða þóknun. Þá er fyrirtækið að veðja á að uppfinning ykkar reynist þeim miklu meira virði en þeir leggja út handa ykkur. En veðmálið getur brugðist ef varan selst ekki eins vel og búist var við.

Það er ekki á vísan að róa með hvort uppkaup séu ykkur í hag eða ekki, svo að þið skuluð leita faglegrar ráðgjafar ef þið fáið slíkt tilboð. Áform fyrirtækisins eru yfirleitt að kaupa hugmyndina upp fyrir lítið, en reiðufé er alltaf freistandi og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Einum uppfinningamanni bauðst t.d. val um að selja hugmynd sína með öllu fyrir 300 milljónir kr. eða vera tryggð lágmarksþóknun upp á 18 milljónir á ári. Hann tók síðari kostinn, en salan varð mun tregari en búist hafði verið við og að tveimur árum liðnum var varan tekin af markaði