Að gera nytjaleyfissamning

Göngum út frá því að fyrirtækið hafi lagt mat á uppfinningu ykkar og sækist eftir henni. Næsta skref er að gera nytjaleyfissamning.

Þið verðið að tefla fram fagmönnum ef þið hafið ekki fulla trú á eigin hæfni í samningagerð eða ef líklegt er að  nytjaleyfissamningarnir verði flóknir, t.d. ef þeir eiga að ná til margra landa. Spyrjið löglærðan fulltrúa ykkar ráða um hverjir eigi að koma fram fyrir ykkar hönd.

Yfirleitt tekur langan tíma að ljúka nytjaleyfissamningum, oft marga mánuði. Þeir geta einnig orðið deiluefni því nær óhjákvæmilegt er að þið og fyrirtækið séuð ósammála um verðmæti uppfinningar ykkar.

Sá sem vill vera góður samningamaður verður alltaf að:

  • vita hvað hann vill fá út úr samningunum.
  • skilja aðstæður mótaðilans (fyrirtækisins).
  • koma fram af heilindum, bæði sem persóna og fagmaður.
  • vera nægilega harður af sér til að slíta samningaviðræðum fremur en standa upp með lélegan samning.

Þið verðið að vera undir það búin að sýna sveigjanleika. Það er tilgangslaust að hamra á fjárkröfum sem viðsemjandinn hefur einfaldlega ekki efni á að ganga að. Flestir nytjaleyfissamningar eru sprottnir af ferli málamiðlana þar sem báðir aðilar finna leiðir sem hvorir tveggja geta unað við til að fá það sem þeir ætluðu sér.

Engu að síður geta samningaviðræður verið sálfræðilega flóknar. Ef aðilarnir geta ekki með nokkru móti náð saman persónulega, kann að vera ómögulegt að ná nokkru viðunandi samkomulagi. Því ættuð þið að skipuleggja hvað þið getið gert til að halda stjórn á hlutunum. Ef allt um þrýtur getur eina leiðin verið sú að draga sig út úr samningaviðræðunum, enda sé þá enginn ávinningur af að halda þeim áfram. (Haft hefur verið á orði að sá sem getur gengið burt frá samningaborðinu sé sá sem ræður ferðinni og margt er til í því.)