Fyrstu kynni

Hvernig fáið þið fyrirtæki til að taka eftir ykkur?

Samskiptamáti

 • Ef þið eruð með raunverulega vöru og nægilega vernduð hugverkaréttindi væri best að senda fréttatilkynningu til viðskiptablaða á ykkar sviði. Árangursríkast gæti verið að gera þetta með aðstoð fagmanns í markaðsmálum, vegna þess að ritstjórnir eiga til að hunsa þær upplýsingar sem ekki eru sendar inn á því formi sem þær kjósa helst.
 • Hringið ekki í fyrirtæki nema til þess að komast að því hverjum sé best að skrifa bréf eða senda tölvupóst. (Spyrjið hvort þyki betra. Tölvupóstur er ódýr og einfaldur, en oft er hann áltinn rusl og aldrei lesinn. Bréf getur verið hentugra til að koma á fyrstu kynnum.)
 • Einbeitið ykkur að markaðsmönnum fremur en tæknimönnum. Hinir fyrrnefndu eru líklegri til að sjá sölumöguleika í uppfinningu ykkar.
 • Kynnið ykkur ekki sem uppfinningamenn. Þið eruð einfaldlega fólk með viðskiptatilboð til starfssystkina ykkar í viðskiptum.

Viðskiptabréfið eða tölvupósturinn

 • Markmið ykkar er að vekja forvitni, ekki að drekkja lesandanum í ónauðsynlegum upplýsingum. Gerið stutta samantekt um uppfinningu ykkar á eitt A4-blað. Haldið ykkur við viðskiptalega möguleika, lýsið nákvæmlega hvað uppfinningin gerir sem er sérstakt, en ekki hvernig hún gerir það. Notið tungutak viðskipta, ekki auglýsinga. Ekki ætti að segja: „Þið munuð græða milljónir á henni!“, heldur: „Hún gæti búið yfir möguleikum til að auka sölu ykkar umtalsvert“.
 • Sendið ekki ljósmynd nema (a) vernd hugverkaréttinda sé nægileg og (b) myndin sé hágæðamynd af hágæðavöru eða -frumgerð.
 • Það má minnast á einkaleyfisumsókn, en ekki upplýsa um nein smáatriði þar, jafnvel þótt hún hafi þegar verið gefin út.
 • Látið stuttan inngang fylgja bréfinu. Dæmi:

„Ég læt hér fylgja stutt yfirlit um nýstárlega vöru sem fyrirtæki þitt kynni að hafa áhuga á. Til er frumgerð af henni sem ég myndi vilja sýna þér ef hægt væri að gera það með fullum trúnaði.“ Ég get mætt til fundar með fremur stuttum fyrirvara. Vinsamlega láttu mig vita ef frekari upplýsinga er þörf. Með von um að heyra frá þér.

 • Hafi ekkert svar borist eftir tvær eða þrjár vikur, hringið þá eða sendið tölvupóst til að komast að því hvernig hugmynd ykkar var tekið. Ef fyrirtækið hefur ekki áhuga á uppfinningunni skuluð þið ekki reyna að sannfæra neinn. Reynið heldur að finna út hvers vegna. Þið gætuð lært eitthvað af því sem nýttist ykkur seinna hjá öðrum fyrirtækjum.
 • Ef svör fást ætti ekki að láta blekkjast af fagurgala. Ef fyrirtækið segir að hugmyndin sé „snjöll“ eða „afar frumleg“, en minnist hvergi á fundarboð hefur það ekki áhuga. Menn eru bara of kurteisir til viðurkenna það. Eins geta þeir sagt að hugmynd ykkar „falli ekki að áætlunum fyrirtækisins eins og er“. Það þýðir að hún muni aldrei gera það.
 • Hvað ef ykkur er boðið til fundar eða frekari upplýsinga er óskað, en fyrirtækið vill ekki undirrita leyndarsamning? Valið stendur þá um að treysta því eða leita annað. Ef sérstaklega er óskað upplýsinga, sem þið viljið að trúnaður ríki um, ættuð þið að hafna því kurteislega og útskýra hvers vegna. En eins og við útskýrðum í 6.kafla, ætti að vera mögulegt að mæta á fyrsta fund án þess að þurfa að afhjúpa trúnaðarupplýsingar.

Aðvörun!

Meðan þið eruð að vinna að því að hafa samband við fyrirtæki, skuluð þið vara ykkur á öllum þeim sem hafa samband við ykkur og lýsa brennandi áhuga á uppfinningu ykkar. Einhverjir þeirra gætu verið frá sviksamlegum kynningarfyrirtækjum fyrir uppfinningar (4. kafli). Til marks um það gæti verið:

 • að hvernig sem þeir rökstyðja það, vilja þeir að þið borgið þeim.
 • að þeir þrýsta fast á ykkur um að „bregðast þegar við“.
 • að þeir hafa bækistöð í öðru landi.
 • að þeir eru áfjáðir í að hitta ykkur á hóteli, en hafa lítinn áhuga á að þið heimsækið þá.

Almenna reglan er sú að sérhvert það fyrirtæki, sem virðist of áhugasamt og sýnir of mikinn vilja til að koma á fundi eða frekara símasambandi, er grunsamlegt. Miklar líkur eru á að aðeins sé verið að reyna að hafa af ykkur fé. Fyrirtæki, sem hefur raunverulegan áhuga, mun sýna meiri gætni og minni yfirlýsingagleði og ekki ætlast til að þiggja greiðslur af ykkur fyrir neitt.