Einkaleyfisáætlun

Að fleiru þarf að hyggja þegar sótt er um einkaleyfi en einungis því að uppfylla formlegar kröfur einkaleyfastofu. Þið ættuð að reyna að fella einkaleyfisumsókn ykkar inn í víðara samhengi, þ.e. þróun uppfinningar ykkar. Meðal atriða sem ætti að ræða við einkaleyfasérfræðing eru eftirfarandi:

Hvenær á að sækja um?

Vegna þess hve umsóknarferlið er formlegt getur tímasetning umsóknar ráðið miklu um hversu hratt þið þurfið að bregðast við síðar. Er betra að sækja um fyrr en seinna?

Við þessari spurningu er ekki til einfalt svar. Margir uppfinningamenn eru áfjáðir í að sækja um einkaleyfi eins fljótt og unnt er, en svo eru mörg happasæl fyrirtæki sem draga umsóknir þar til vörurnar eru nánast tilbúnar á markað.

Einn ókostur við að sækja um snemma er sá að þið getið þurft að greiða vænar fjárhæðir í kostnað áður en ljóst er hvort hugmyndin er viðskiptalega lífvænleg. Allt að tveggja ára frestur getur liðið frá umsókanrdegi þar til kemur að greiðslu umtalsverðra einkaleyfisgjalda, en sá tími dugir sjaldan til að ná nytjaleyfissamningum við fyrirtæki. Hann er jafnvel stundum of stuttur til þess að menn nái að gera sér mynd af viðskiptamöguleikum uppfinninga.

Einn ókostur við að sækja um seint er sá að einhver getur þá verið búinn að leggja inn umsókn fyrir mjög svipaðri hugmynd.

Kostnaður hlýtur að vera aðalatriði fyrir marga uppfinningamenn sem starfa á eigin vegum. Því síðar sem sótt er um, þeim mun lengur er útgjöldum frestað. En hversu lengi hafa menn efni á að bíða? Séu einkaleyfasérfræðingum ykkar allar staðreyndir kunnar getur hann eða hún hugsanlega neglt niður bestu dagsetninguna til að leggja inn umsókn og gefið svo ráð um hvernig best sé að vernda hugmyndina fram að því.

Þrýstingur á að fá einkaleyfi

Þið kunnið að láta freistast til að senda inn ótímabæra umsókn vegna þess að viðskiptaráðgjafar eða fyrirtæki, sem eru hugsanlegir nytjaleyfishafar, ráðleggja ykkur það. Íhugið alltaf hverra hagsmunum slík ráðgjöf þjónar best. Í mörgum tilfellum mun hagnaður ykkar ekki verða mikill.

Framhald leitar að þekktri tækni

Heimurinn gengur sinn gang þótt umsókn ykkar hafi verið lögð inn. Þið verðið að halda áfram leit að einkaleyfum og vörutegundum, því ýmislegt getur gerst eftir að þið sóttuð um sem getur haft áhrif á síðari ákvarðanir ykkar um hvort halda eigi áfram með umsóknina.

Nytjaleyfi eða stofnun fyrirtækis?

Tímann, sem líður frá því að umsókn er lögð inn og þar til farið er fram á efnislega rannsókn, er gott að nota til þess að leita leiða til að hagnýta uppfinninguna. Þó að fyrsta val ykkar sé nytjaleyfissamningur getur borgað sig að setja því lokafrest. Að honum liðnum verði stefnan sett á stofnun fyrirtækis. Ástæðan er sú að ef ekkert fyrirtæki sýnir hugmynd ykkar áhuga er ekki gott að vera kominn á stig efnislegrar rannsóknar og eiga engan annan valkost inni.

Umsókn lögð inn að nýju

Hugsanlega getið þið unnið ykkur inn meiri tíma til að leita nytjaleyfissamninga með því að draga umsókn ykkar til baka og leggja hana inn síðar. Slíka ákvörðun verðið þið samt að ræða við einkaleyfasérfræðing ykkar svo að þið skapið ekki fleiri vandamál en þið leysið.

Tímabundinn ávinningur

Mögulegt er að nota einkaleyfisumsókn eingöngu til tímabundins ávinnings og að hafna efnislegri rannsókn. Þið kynnuð til dæmis að vilja nota umsóknina til að vernda hugmynd ykkar nógu lengi til að hagnýtingarmarkmið ykkar næðust. Enn verðið þið að ræða þetta við einkaleyfasérfræðing ykkar vegna þess að þetta getur falið í sér áhættu sem þið höfðuð ekki hugsað út í. Næstum borðleggjandi er að sé umsókn gefin upp á bátinn mun af því leiða að ykkur verður miklu erfiðara og reyndar sennilega ógerlegt að selja nokkrum aðila nytjaleyfi fyrir uppfinningunni. 

Það getur í sjálfu sér verið nóg að fá einkaleyfisumsókn gefna út. Um leið og það hefur verið gert fá mögulegir viðskiptavinir og viðskiptafélagar veður af uppfinningunni og setja sig í samband við eigendur hennar ef þeir hafa áhuga. Útgefin umsókn er líka orðin þekkt tækni, sem getur fælt samkeppnisaðila frá því að fá einkaleyfi á sömu eða svipaðri hugmynd síðar. Þannig getið þið jafnvel tekið til starfa á markaði þótt umsókn ykkar hafi enn ekki verið samþykkt. Þið gætuð síðan kosið að fylgja henni ekki frekar eftir ef það hentar viðskiptaáformum ykkar og ekki síst ef þið hefðuð ekki ráð á þeim útgjöldum sem fylgja því að fá einkaleyfi og framfylgja því.

Fjáröflun

Fengið einkaleyfi getur hjálpað til við að telja fjárfesta á það, að hugmynd ykkar sé þess virði að staðið sé með henni og með því móti kann fjármagn að fást upp í kostnaðinn við einkaleyfið. Þið ættuð því ekki aðeins að líta á einkaleyfi sem leið til að verja hugmynd ykkar, heldur einnig sem tæki til fjáröflunar.