Hagnýting

Leiðir til hagnýtingar

Í grunninn eru fjórar leiðir til þess að hagnýta sér uppfinningu:

 • Gerður er nytjaleyfissamningur við fyrirtæki.
 • Stofnun fyrirtækis: notið hugmynd ykkar til að koma ykkur sjálfum á markað.
 • Samstarfsverkefni.
 • Bein sala á hugmyndinni.

Nytjaleyfi

Þið gerið nytjaleyfissamning, sem leyfir not af hugverkaréttindum ykkar gegn greiðslu, við eitt eða fleiri fyrirtæki. Sú greiðsla er venjulega í formi þóknunar sem borguð er út með umsömdu, reglulegu millibili svo lengi sem samningur gildir.

Semja þarf um nákvæmt orðalag nytjaleyfisins og það samningaferli getur verið langvinnt (oft margir mánuðir) og flókið. Nytjaleyfið er bindandi lögformlegt skjal svo að yfirleitt er nauðsynlegt að fá til liðs við sig einkaleyfasérfræðinga og aðra lögfróða aðila.  

Almennt um gagnsemi nytjaleyfis:

 • Það kemur ykkur til góða þar sem nytjaleyfishafinn er skuldbundinn til að greiða fyrir not af hugverkaréttindum ykkar.
 • Það kemur nytjaleyfishafanum til góða með því að tryggja honum vöru eða tæknilegan ávinning umfram samkeppnisaðila.
 • Það gerir ykkur eða nytjaleyfishafanum (fer eftir skilmálum í nytjaleyfinu) kleift að lögsækja aðra sem reyna að stela eða líkja eftir hugmyndinni.

Nytjaleyfi er besta leiðin fyrir marga uppfinningamenn til að hafa hag af uppfinningu sinni. Aðalástæður þess eru:

 • Nytjaleyfishafinn ber kostnað og áhættu af framleiðslu og markaðssetningu.
 • Verið getur að einungis gamalgróin fyrirtæki hafi bolmagn til að hagnýta sér hugmynd með meiri háttar viðskiptamöguleika.
 • Nytjaleyfi getur séð uppfinningamanninum árum saman fyrir tekjum sem hann þarf tiltölulega lítið að hafa fyrir.

Sumir uppfinningamenn, einkum í hátæknigeiranum, stofna fyrirtæki til þess eins að leigja út hugverkaréttindi sín og fylgjast með framvindu nytjaleyfissamninga sinna. Þetta er mögulegur valkostur fyrir þá sem vilja stofna sitt eigið fyrirtæki en vilja ekki að það verði of stórt.

Tegundir uppfinninga, sem gott getur verið að gera nytjaleyfissamninga um, eru m.a.:

 • Íhlutir sem mörg fyrirtæki þurfa á að halda, eins og áfasti dósarlokshringurinn.
 • Fylgihlutir eða jaðardót sem eru háð tiltekinni vöru sem fyrir er. Ekki er líklegt að slíkir hlutir eigi sér mikla framtíð nema með nytjaleyfissamningi við fyrirtæki sem ræður yfir framleiðslu á vörunni sem þeir eru háðir.
 • Vörur með mikinn framleiðslustofnkostnað.

Hins vegar, munu einungis traustustu hugverkaréttindin vekja áhuga væntanlegra nytjaleyfishafa. Í flestum tilvikum er hér átt við einkaleyfi. Ef þið getið ekki fengið einkaleyfi á hugmynd ykkar eða ef kröfurnar, sem þið fáið samþykktar, eru ekki sérlega sterkar er ekki líklegt að mörg fyrirtæki sækist eftir nytjaleyfi frá ykkur. Og þótt þau hafi áhuga er ekki líklegt að þau vilji borga mikið fyrir nytjaleyfið.

Stofnun fyrirtækis

Stofnun fyrirtækis getur verið fyrsti kostur ykkar ef þið hafið löngun til að verða athafnamenn eða valkostur sem þið verðið að hugleiða af því að ekki hefur tekist að vekja áhuga neinna fyrirtækja á nytjaleyfissamningi.

Þetta má einnig íhuga sem leið til þess að telja fyrirtæki á að gera nytjaleyfissamning við ykkur.  Ef ykkur tekst að sanna að vara ykkar seljist vel í raun, jafnvel aðeins í stuttan tíma, getur það orðið til þess að fyrirtækin sýni henni miklu meiri áhuga.

Tegundir uppfinninga, sem gott gæti verið að stofna fyrirtæki um, eru m.a.:

 • Vörur í iðngreinum byggðum á mikilli þekkingu, svo sem upplýsingatækni og dýrri sjúkrahústækni, þar sem lítil fyrirtæki geta blómstrað.
 • Vörur sem ódýrt er að framleiða og eru fyrst og fremst háðar markaðssetningu.
 • Vörur sem ekki er hægt að fá traust einkaleyfi á.
 • Vörur sem bjóða ekki upp á nægilega mikla gróðamöguleika til að vekja áhuga stærri fyrirtækja.

Það er ekki allra að stofna fyrirtæki. Hins vegar minnir reynslan á að uppfinningamenn, sem gerast athafnamenn, hafa oft náð betri árangri en þeir sem treysta á að finna nytjaleyfishafa.

Samstarfsverkefni

Annar valkostur við það að stofna eigið fyrirtæki er að fara í samstarfsverkefni með fyrirtæki, einstaklingi eða jafnvel háskóla sem hefur þá sérfræðiþekkingu og það bolmagn sem þið þurfið á að halda. Samstarfsaðili ykkar í verkefninu gæti t.d. verið fyrirtæki sem er tilbúið til að hjálpa ykkur að þróa hugmynd ykkar lengra í því skyni að öðlast betri hugmynd um möguleika hennar.

Ef til vill er best að líta á slíkt samstarfsverkefni sem tilraun sem tekst eða tekst ekki. Þess vegna ættuð þið ekki að reikna með að hafa hagnað af því. Ef það gengur upp getur það leitt til nytjaleyfissamnings, stofnunar dótturfyrirtækis eða einhvers varanlegra viðskiptasambands.

Bein sala

Mögulegt er að fyrirtæki bjóðist til að kaupa hugverkaréttindin að uppfinningu ykkar fyrir uppsett verð. Ef um er að ræða uppfinningu, sem á góða markaðsmöguleika, gæti verið skynsamlegra að hafna slíku boði. En sala er eitthvað sem vert er að íhuga ef hugmynd ykkar hefur lítið eða skammvinnt efnahagslegt gildi, bæði fyrir ykkur og fyrirtækið. Fyrirtækið hefur hag af því að binda sig ekki árum saman með nytjaleyfissamningi. Ávinningur ykkar er (a) óvænt lausafjármagn og (b) frelsi frá allri ábyrgð og útgjöldum sem falla á eiganda hugmyndarinnar, þ.m.t. viðhaldi einkaleyfa.  

Auðvitað veltur margt á því hvaða upphæð er í boði. Þið ættuð að leita ráðgjafar fagfólks um raunhæft mat á verðmæti hugmyndar ykkar, en þetta verður alltaf áhætta á báða bóga. Þið kunnið að sjá eftir sölunni ef varan skilar óvænt miklum hagnaði til langs tíma. Fyrirtækið kann að sjá eftir henni ef varan selst ekki.

Fyrirtæki sem bjóðast til að kynna uppfinningar

Sum fyrirtæki vilja að þið trúið því að fimmti valkosturinn sé til, sá að borga þeim fyrir að markaðssetja hugmynd ykkar. Gætið fyllstu varúðar í samskiptum við slík fyrirtæki.

Fyrirtæki, sem bjóðast til að kynna uppfinningar, hneigjast til að vinna öll á sama hátt, þegar á heildina er litið.

 • Þau bjóðast til að gefa ykkur álit á markaðsmöguleikum hugmyndar ykkar, venjulega fyrir gjald sem nemur nokkrum tugum þúsunda króna.
 • Þau senda ykkur síðan venjulega afar jákvæða skýrslu, þar sem lítið eða ekkert er minnst á þekkta tækni. (Það þjónar ekki hagsmunum þeirra að segja ykkur frá þekktri tækni!)
 • Þau munu síðan segja ykkur að þau geti hjálpað ykkur við að markaðssetja hugmynd ykkar fyrir nokkur hundruð þúsund krónur.
 • Í mörgum tilfellum er „hjálp“ þeirra ekki fólgin í öðru en bréfsefnum og lista yfir heimilisföng fyrirtækja. Fyrirtækin þurfið þið að hafa samband við sjálf.
 • Oft eru slík kynningarfyrirtæki uppfinninga með aðsetur erlendis, sem gerir ykkur erfitt fyrir að krefjast skaðabóta.

Þessi fyrirtæki eru ekki endilega að vinna á sviksamlegan hátt. Oft eru skilmálar þeirra og skilyrði samin þannig að þau geti haldið sig réttu megin við lögin. Þrýstingur frá stjórnvöldum þvingar einstök fyrirtæki stundum til að hætta starfsemi, en venjulega er aðeins spurning um tíma hvenær önnur koma í þeirra stað.

Óáreiðanleg fyrirtæki, sem bjóðast til að kynna uppfinningar, þrífast eingöngu vegna trúgirni sumra uppfinningamanna svo að þið verðið að tortryggja hvern þann sem rómar uppfinningu ykkar og býðst til að markaðssetja hana á ykkar kostnað.  (Það getur verið upplýsandi að leita að viðskiptanafni þeirra á veraldarvefnum eða nota leitarorð eins og „uppfinningasvindl“, „uppfinningakynning“, „uppfinningamiðlari“, „uppfinningafyrirtæki“ o.s.frv. Einnig mætti leita ráðgjafar hjá verslunarráði heima fyrir.) Almenna reglan er að láta öll fyrirtæki, sem sækjast eftir fé ykkar en taka ekki á sig neina áhættu, eiga sig.

Þótt heiðarleg fyrirtæki kunni einnig að taka gjald í upphafi fyrir að meta hugmynd ykkar munu þau væntanlega ekki krefja ykkur um miklar greiðslur eftir það. Þau munu hafna flestum hugmyndum sem til þeirra berast þar sem þau eru einungis tilbúin að taka áhættu með sárafáar hugmyndir á hverju ári. Ef þau halda í alvöru að hugmynd ykkar eigi góða möguleika væri heiðarlegra að leita eftir samningi við ykkur sem veitir þeim rétt á hlutdeild í framtíðargróða. Með öðrum orðum ætla þau að hafa tekjur sínar af sölu uppfinningarinnar, en ekki af ykkur.