Hvað er þekkt tækni?

Þekkt tækni felur í sér hvaða sönnun sem er fyrir því að uppfinningin sé þegar kunn.

Þekkt tækni þarf ekki að vera áþreifanleg eða fáanleg á markaði. Nægjanlegt er að einhver hafi einhvern tímann og einhvers staðar lýst einhverju eða sýnt eða gert eitthvað sem felur í sér notkun tækni sem líkist mjög uppfinningunni.

Forsögulegt hellamálverk getur fallið undir þekkta tækni. Brot af aldagamalli tækni sömuleiðis. Hugmynd, sem áður hefur verið lýst, getur talist þekkt tækni þótt hún geti engan veginn gengið upp. Hvað sem er getur talist þekkt tækni.

Augljósasta form af þekktri tækni er vara sem þegar er til staðar. Þetta getur leitt til þess að margir uppfinningamenn geri algeng mistök. Þeir gefa sér að uppfinning þeirra hljóti að vera ný takist þeim hvergi að finna vöru, sem inniheldur uppfinninguna.

Reyndin er allt önnur. Margar uppfinningar verða aldrei að vörum, en þrátt fyrir það geta einhvers staðar legið fyrir sönnunargögn um að þær séu til. Þau sönnunargögn – á hvaða formi sem vera skal – teljast þekkt tækni.

Nákvæmar tölfræðiupplýsingar liggja ekki fyrir, en ýmsir sérfræðingar meta það svo að fyrir hverja skráða uppfinningu, sem kemst á markað, séu tíu sem aldrei ná svo langt. Þetta þýðir að ef komast á að því hvort uppfinning sé ný þarf vissulega að skoða vörur bæði í nútíð og fortíð, en það þarf einnig að leita mun víðar.

Mikilvægasti staðurinn til ítarlegrar leitar að þekktri tækni er einkaleyfakerfi heimsins. Í sumum gagnagrunnum um einkaleyfi, þ.m.t. hinum opna gagnagrunni Evrópsku einkaleyfastofunnar, https://worldwide.espacenet.com/, eru yfir 60 milljónir flokkaðra skjala, sem safnað hefur verið saman frá einkaleyfastofum margra landa.

Með aðstoð veraldarvefsins og hins alþjóðlega flokkunarkerfis, sem notað er til að raða uppfinningum eftir tæknisviðum, er býsna auðvelt fyrir uppfinningamenn að gera sínar eigin einkaleyfisrannsóknir. Því verður nánar lýst síðar hvernig standa beri að þeim.

Samkeppnishæf tækni

Þegar leitað er að þekktri tækni ætti einnig að leita að samkeppnishæfri tækni. Það eru hugmyndir, sem eru kannski ekkert líkar uppfinningunni sem gengið er út frá, en skila sama verki. Tvær ástæður liggja fyrir því að mikilvægt er að rannsaka samkeppnishæfa tækni:

  • Flestar uppfinningar eru lausnir á vandamálum og á flestum vandamálum er mögulegt að finna fleiri en eina lausn. Nauðsynlegt er að skoða hinar lausnirnar því sumar þeirra gætu verið boðlegri en ykkar.
  • Ef þið reynið að hafa eitthvað upp úr hugmynd ykkar í viðskiptum geta aðrar lausnir veitt harða samkeppni. Ef þið ætlið að rökstyðja með árangri að ykkar lausn sé betri en hinar þurfið þið að vita út á hvað hinar lausnirnar ganga!