Fundir

  • Gefið ykkur að fyrsti fundur standi vart yfir í meira en hálftíma og undirbúið kynningu sem nýtir stuttan tíma til hins ítrasta.
  • Gangið úr skugga um að fyrirtækið viti af því fyrirfram ef þið þurfið einhvers sérstaks með til að sýna vöru ykkar eða frumgerð.
  • Útbúið upplýsingamöppu fyrir ykkur sjálf og hafið með til að styðjast við þegar þið eruð spurð út úr. Gangið úr skugga um að hún sé auðveld í notkun og að þið vitið hvað er í henni og hvað ekki. En:
  • Skiljið eftir heima allar upplýsingar um hugverkaréttindi ykkar. Ef óskað er eftir að ræða þau skuluð þið hafna kurteislega að gera það á þessu stigi, jafnvel þótt leyndarsamningur hafi verið undirritaður. Þið ættuð aðeins að veita upplýsingar um vernduð hugverkaréttindi ef ljóst er að fyrirtækið hefur verulegan áhuga og yfirleitt er alltof snemmt að gera það á fyrsta fundi.
  • Treystið ekki á að varan eða frumgerðin ein og sér nægi til að sannfæra fundarmenn. Þeir eru ekki síður að bregðast við ykkur. Eruð þið (eða lið ykkar) fólk sem þeir vilja eiga viðskipti við?
  • Reynið að meta starfsmenn fyrirtækjanna, sem þið hittið, sem einstaklinga. Getið þið hugsað ykkur að eiga viðskipti við þetta fyrirtæki?
  • Skrifið þeim bréf eftir fundinn þar sem þið lýsið skilningi ykkar á þeirri niðurstöðu sem samkomulag varð um. Ef fyrirtækið stendur síðan ekki við þau loforð, sem það gaf, getur þetta hjálpað ykkur til að ákvarða hversu mikið traust þið megið bera til þess!
  • Örvæntið ekki þótt fundurinn skili engri niðurstöðu. Hlustið og lærið. Ef starfsmenn fyrirtækisins þekkir markað sinn vel getið þið komið út með nægar gagnlegar upplýsingar til að gera fundinn ómaksins verðan.
  • Ef uppfinningu ykkar er hafnað, skuluð þið biðja um skriflega staðfestingu þess að fyrirtækið hafi engan frekari áhuga á að fylgja málinu eftir. Það ætti að fæla fyrirtækið frá að þróa svipaða vöru og halda fram að það hafi aldrei hafnað hugmynd ykkar formlega.

Geymið afrit af öllum samskiptum ykkar og þeirra, sérstaklega þar sem beinharðar tölur koma fyrir (prósentur, söluspár o.s.frv.). Þetta verðið þið að leggja á ykkur, því þetta er ekki síður partur af vernd hugverkaréttinda ykkar en einkaleyfisumsókn. Sum fyrirtæki (og reyndar sumir uppfinningamenn líka) hagræða tölum og staðreyndum ef þau halda að þau geti komist upp með það.