Alþjóðleg vörumerki

Vörumerki sem skráð eru hjá Einkaleyfastofunni er einungis vernduð á Íslandi. Alþjóðleg umsókn verður þó að byggja á íslenskri grunnumsókn sem síðar verður skráð, eða skráningu hér á landi. Umsækjandi verður því að leggja inn umsókn um skráningu hér á landi, hjá Einkaleyfastofunni, áður eða um leið og alþjóðleg umsókn er lögð inn. Vörumerkið verður að vera eins í báðum tilvikum og vöru- og þjónustulistinn má ekki vera víðtækari.

Hægt er að leggja inn umsókn í ríki fyrir sig eða leggja inn umsókn í gegnum alþjóðlegt skráningarkerfi vörumerkja (Madridbókunin).
Skráningarkerfið er á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar í Genf, WIPO.

Umsækjandi getur notfært sér forgangsrétt við innlagningu alþjóðlegu umsóknarinnar, svo framarlega að íslenska grunnumsóknin sé ekki eldri en sex mánaða. Alþjóðlega umsóknin telst þá fram komin samtímis umsókn vörumerkisins hér á landi.

Í umsókn um alþjóðlega skráningu þarf að koma fram í hvaða ríkjum skráningar er óskað. Hægt er að vernda merkið í öllum aðildarríkjum Madrid-bókunarinnar. Aðild Íslands að bókuninni felur í sér að aðilar með íslenskt ríkisfang/búsetu geta lagt inn alþjóðlega umsókn um vörumerki hjá Einkaleyfastofunni. Aðildarríkin eru nú vel yfir 90 að tölu, þ.á m. Evrópusambandið, Kína og Bandaríkin. Greitt er tiltekið gjald fyrir hvert tilnefnt land, en ákvörðun un skráningarhæfi umsóknarinnar er tekin í hverju landi fyrir sig.

Umsóknin þarf að vera á ensku og á sérstöku eyðublaði sem nálgast má á heimasíðu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO).  Ef Bandaríkin eru tilnefnd í umsókn um alþjóðlega skráningu vörumerkis þar að fylla út sérstakt eyðublað sem finna má hér.

Leiðbeiningar við útfyllingu umsóknareyðublaðs á íslensku.

Umsýslugjald greiðist til Einkaleyfastofunnar í samræmi við gjaldskrá, en önnur gjöld vegna umsóknarinnar greiðast beint til WIPO. Á heimasíðu WIPO er að finna reiknivél, þar sem hægt er að reikna út tilskilin gjöld. Leiðbeiningar vegna reiknivélar.

Vefslóðir vegna alþjóðlegrar umsóknar, leiðbeiningar og reiknivél til að reikna út gjöld má einnig finna hér á heimasíðinni.

Alþjóðleg skráning gildir í 10 ár. Að þeim tíma liðnum er hægt að endurnýja skráninguna til 10 ára í senn, eins oft og eigandi óskar.

Vinsamlegst athugið að borið hefur á því að eigendur alþjóðlegra skráninga hafi fengið send bréf frá erlendum samtökum og stofnunum þar sem þeim er boðið að skrá vörumerki sín í, að því er virðist, opinberum tíðindum gegn greiðslu. Einkaleyfastofan vekur athygli á því að slík birting hefur engin lagaleg áhrif á vernd merkjanna og er því óþörf. Gjöld vegna alþjóðlegra skráninga greiðast eingöngu til WIPO. Frekari upplýsingar um falskar rukkanir má finna hér.