Að gera viðskiptaáætlun

Viðskiptaáætlun er nauðsynlegt tæki til að umbreyta uppfinningu í verslunarvöru. Þið og lið ykkar þarfnist hennar til að hjálpa til við að skipuleggja hagnýtingu ykkar og hafa stjórn á henni. Þið þarfnist hennar einnig til þess að telja fjárfesta og fjármögnunaraðila á að styðja ykkur.

Leiðbeiningar um hvernig gera eigi viðskiptaáætlanir er víða að fá og oft ókeypis, til að mynda hjá bönkum. En viðskiptaáætlun fyrir uppfinningu getur þurft að nálgast með öðrum hætti.  

Viðskiptaáætlanir eru oft gagnrýndar fyrir að vera „skáldskapur“, sem fyrst og fremst sé ætlað að ganga í augun á fólki. Í reynd er megintilgangur viðskiptaáætlunar sá að draga úr áhættu þess sem hana gerir, liðsmanna hans og mögulegra fjárfesta. Það er gert með því að skrá og skipuleggja öll markverð atriði í verkefninu sem áætlunin snýst um þannig að það afhjúpi þegar alla veikleika og geri mönnun kleift að bæta úr þeim.

Viðskiptaáætlun jafngildir líka aðgerðahandbók. Hana ætti að uppfæra reglulega og líta alltaf á sem verk í vinnslu. Jafnvel fárra vikna gömul viðskiptaáætlun getur orðið gagnslaus ef um er að ræða verkefni sem vindur hratt fram!

Hætta á opinberun

Upplýsingar í viðskiptaáætlun teljast opinber birting. Því verður að tryggja að uppfinningin sé nægilega vernduð, t.d. með einkaleyfisumsókn, áður en nokkur fær að sjá viðskiptaáætlunina. Þetta á líka við um öll drög að viðskiptaáætlunum sem gerð eru áður en einkaleyfisumsókn er lögð inn.

Engu að síður er mikilvægt, þótt einkaleyfisumsókn hafi verið lögð inn, að takmarka aðgang að viðskiptaáætlunum. Þær má t.d. ekki setja á vefsíður! Fjárfestar geta laðast að nýrri viðskiptahugmynd að hluta til vegna þess að hún er ekki á allra færi. Haldi þeir að samkeppnisaðilar þekki þegar helstu atriði hugmyndarinnar munu þeir síður kjósa að fjárfesta í henni.

Íhugið að biðja fólk um að undirrita leyndarsamning áður en það fær að sjá viðskiptaáætlun ykkar. Mögulegir fjárfestar gætu neitað því, en þeir gætu einnig hrifist af umhyggju ykkar fyrir því að binda upplýsingar trúnaði.