Uppsprettur fjármagns

Ólíklegt er að bankar eða vogunarfjárfestar fáist til að fjármagna þróun eða markaðssetningu uppfinningar. Bankar vilja ekki taka áhættu og vogunarfjárfestar hafa tilhneigingu til að fjárfesta aðeins í starfandi fyrirtækjum sem rekin eru af reyndum forstjórum.

Álitlegri uppsprettur fjármagns fyrir uppfinningar eru: 

  • Fjölskylda og vinir

Einstaklingar geta verið fúsir til að leggja fram lágar fjárupphæðir sem þeir hafa efni á. Þeir sem fundu upp hið gríðarvinsæla spurningaborðspil Trivial Pursuit® komu til dæmis alls staðar að lokuðum dyrum hjá þeim fyrirtækjum sem þeir reyndu við. Þá buðu þeir vinum sínum að kaupa hluti upp á 500 og 1.000 dollara og söfnuðu þannig öllu því fé sem þeir þurftu til að ýta spilinu úr vör. Margt fólk er tilbúið að veðja upphæðum, sem það hefur efni á að tapa, fyrir lítinn hlut sem þó er ómaksins verður, t.d. eitt prósent fyrir hverjar 1.000 evrur sem lagðar eru fram, að því tilskildu að viðskiptatækifærið sé kynnt með sannfærandi hætti.

  • Einkafjárfestar sem oft eru nefndir „viðskiptaenglar“

Þetta eru einstaklingar sem vilja leggja eigið fé í smáfyrirtæki. Flestir þeirra eru á höttunum eftir þrennu: skilvirkri framkvæmdastjórn, góðri vöru og efnilegum markaði. Þeir kunna að vera fúsir til að taka mikla áhættu, en vilja þá fá mikið í staðinn. Sannfærandi viðskiptaáætlun er algert skilyrði og engillinn kann að krefjast þess að hafa náin persónuleg afskipti af fyrirtækinu.

Viðskiptaenglar hafa oft með sér svæðasamtök, sem fá má nánari upplýsingar um hjá atvinnuþróunarfélögum.

  • Mögulegir viðskiptafélagar

Það getur verið góð leið til að útvega fjármagn eða annað sem til þarf að stofna félag með starfandi fyrirtæki. Ef eignarhlutföll í þeim félagsskap eru ójöfn getið þið hins vegar verið að taka mikla áhættu. Höfuðmáli skiptir að byggja sérhvert félag á lögformlegu samkomulagi sem skilgreinir félagsskapinn, markmið hans, skiptingu ágóða og hvernig brugðist verði við ýmiss konar breyttum aðstæðum. Gætið þess alltaf að láta ekki af hendi meira vald yfir uppfinningunni og fyrirtækinu en félagsskapurinn stendur undir.

  • Styrkir og niðurgreiðslur frá ríkjum og ESB

Atvinnuþróunarfélög munu með ánægju veita ykkur upplýsingar um fjármögnunaráætlanir fyrir lítil nýsköpunarfyrirtæki sem í gangi eru. Ekki er víst að þeir sjóðir, sem bjóðast, dugi fyrir öllum þróunarkostnaði ykkar, en framlag úr þeim kann að hjálpa til við frekari fjármögnun í einkageiranum. 

Sumar áætlanir takmarkast við fyrirtæki á tilgreindum svæðum. Það kann að vera þess virði að flytja fyrirtæki sitt um set til að eiga kost á stuðningi, en þá þarf að athuga vel alla skilmála og skilyrði. Getið þið verið viss um að leiga sem í upphafi er lág muni ekki snarhækka síðar ef þið hafið til dæmis bundið fyrirtæki ykkar við tiltekna lóð? 

  • Stuðningur frá háskólum

Vert getur verið að kanna háskóla sem mögulega uppsprettu aðstoðar. Þar getur verið um að ræða allt frá ódýrum verkefnum stúdenta, t.d. í markaðsrannsóknum eða vöruhönnun, til ráðgjafar eða prófana á viðskiptalegum grunni. Margir háskólar leita nú með virkum hætti að viðskiptatækifærum í nýsköpun, en þeir ætla einnig að græða á þeim. Vegna þess ættuð þið að bera saman háskóla til þess að sjá hverjir þeirra ráða yfir auðlindum sem henta ykkur og hverjir bjóða aðgengilegustu skilmálana og skilyrðin.  

  • Samkeppnir og umfjöllun

Það að sigra í uppfinninga- eða nýsköpunarsamkeppni getur fylgt gagnlegt fjármagn og umfjöllun. Hafið alltaf tvennt á hreinu áður en þið takið þátt í samkeppni, annars vegar að skipuleggjendur átti sig á því að takmarka þurfi upplýsingar og hins vegar að hugmynd ykkar sé nægilega vel vernduð. Sækið aldrei um einkaleyfi bara til þess að vera með í samkeppni, nema þið séuð algerlega örugg um að vinna hana!

Varið ykkur alltaf á umfjöllun fjölmiðla, sérstaklega sjónvarps, ef þið fáið engu að ráða um hvaða upplýsingum er beint til almennings. Ef sigurvegari í keppni er til dæmis sýndur sem „brjálaður uppfinningamaður“ fremur en alvörugefinn athafnamaður getur sigur hans snúist upp í tap! Hvað varðar prentmiðla er það örugglega til gagns að kunna að senda frá sér fagmannlegar fréttatilkynningar.