Tegundir hugverkaréttinda

Trúnaðarupplýsingar og leyndarsamningar

Þótt trúnaðarupplýsingar varði ekki við nein lögformleg hugverkaréttindi eru þær skyldar hugverkum og oft taldar til þeirra. 

Algengasta tegund verndar á trúnaðarupplýsingum er leyndarsamningur. Leyndarsamningur geymir skriflegt loforð aðila um að nota sér hvorki né veita öðrum upplýsingar um hugmynd, og verndar þannig hugmyndina því hver sem brýtur skilmála leyndarsamnings þarf að sæta lagalegri ábyrgð.

Leyndarsamningar veita ykkur nokkra vernd á öllum stigum þróunar hugmyndar ykkar, hvað sem líður öðrum tegundum hugverkaréttinda og jafnvel löngu eftir að hugmyndin er komin á markað.

Á veraldarvefnum er að finna margvísleg uppköst að leyndarsamningum. Hins vegar kann að vera viturlegt að leita ráðgjafar löglærðs fulltrúa ef þið ætlið að búa til ykkar eigin útgáfu.

Sennilega er stærsta vandamál ykkar það, að fá aðra til að undirrita leyndarsamninginn. Mörg stærri fyrirtæki líta þannig á að ekki sé gagn að leyndarsamningum nema þau hafi verulegan áhuga á hugmyndinni. En oft ekki fyrr en eftir að þau vita hver hún er! (Reynið því að sjá við þessum vanda með því að æfa ykkur í að ræða viðskiptalegan ávinning hugmyndar ykkar án þess að ljóstra upp um hvað er nýstárlegt við hana.)

Leyndarsamningar eru víða notaðir í öllum viðskiptum svo að þið skuluð sannarlega íhuga að nota þá sjálf. Munið aðeins að þeir eru bindandi lagalegir gjörningar og notið þá aðeins þegar báðir aðilar eru sammála um að umtalsverðrar upplýsingagjafar sé þörf.

Ekki má heldur gleyma að hinar sérhæfðu og einstæðu upplýsingar verða að koma eingöngu frá ykkur ef leyndarsamningar eiga að geta haldið aðilum frá því að ljóstra upp um eða nýta sér þær. Allar þær upplýsingar, sem þegar eru orðnar almenn vitneskja, er hverjum sem er frjálst að nýta sér, óháð leyndarsamningum. Á sama hátt eru upphaflegir aðilar leyndarsamnings óbundnir af honum ef trúnaðarupplýsingarnar, sem hann fjallar um, eru síðar opinberaðar eftir öðrum leiðum.

Sérþekking

Sérþekking er óskráð þekking sem þið ein búið yfir og er í ætt við viðskiptaleyndarmál. Án sérþekkingar ykkar gæti öðrum reynst erfitt eða óarðbært að hagnýta sér hugmynd ykkar. Þið gætuð t.d. haft vitneskju um hvernig draga mætti umtalsvert úr framleiðslukostnaði með því að nota hefðbundinn tækjabúnað á óhefðbundinn hátt.

Sérþekking getur verið verðmæti í viðskiptum og taka má tillit til hennar í nytjaleyfissamningum. Sérþekking sem alvöruverðmæti er þó sjaldgæf. Engin leið er heldur að skrá hana og sé henni stolið, oftast af samstarfsmönnum eða aðstoðarmönnum, getur reynst erfitt að færa sönnur á það.

Gáið ennfremur að því að ef í sérþekkingu ykkar felast upplýsingar, sem ættu að koma fram í einkaleyfisgögnum, eigið þið á hættu að einkaleyfið verði einskis vert, ef þið látið þær ekki fylgja með. Þið ættuð alltaf að leita ráðgjafar sérfræðings á sviði einkaleyfa þegar þið eruð að velta fyrir ykkur hvað eigi að líta á sem sérþekkingu.

Höfundarréttur

Höfundarréttur verndar gegn óleyfilegri eintakagerð eða aðlögun teikninga, rita eða ljósmynda er lýsa hugmynd ykkar, í fjölda ára. Hann verndar ekki hugmyndina sjálfa, en er í sumum tilfellum eina virka leiðin til að vernda hugverkaeign ykkar, t.d. ef um er að ræða tölvukóða.

Höfundarréttur kostar ekkert og verður til af sjálfu sér. Hann skiptir máli vegna þess að á grundvelli hans má auðveldlega segja til um hvenær hugmynd kemur fram eða hvenær hún breytist. Hins vegar veitir hann enga vernd gegn þeim sem kemur á eigin spýtur fram með sömu hugmynd eða svipaða. Samkeppnisaðili getur sagt það tilviljun að hugmynd hans líkist ykkar eða að ykkar hugmynd sé eftirlíking af hans. Hvernig getið þið sannað að ykkar hugmynd hafi verið frumhugmyndin?

Eftirfarandi aðgerðir geta hjálpað ykkur að sanna að þið séuð eigendur höfundarréttar ef deila kemur upp á síðari stigum:

  • Lýsið hugmynd ykkar í rituðu máli, gerið teikningar, takið ljósmyndir o.s.frv. og prentið þetta út eða brennið e.t.v. yfir á geisladiska eða mynddiska.
  • Leggið skjöl ykkar eða diska í tryggilega innsiglað umslag með undirritaðri og dagsettri yfirlýsingu frá óviðkomandi sjónarvotti þar sem fram kemur að hann eða hún hafi verið vottur að því að umslagið var innsiglað á þeim degi sem til er greindur.
  • Sendið umslagið í ábyrgðarpósti ykkur sjálfum eða í öruggt geymsluhólf og geymið pósthúskvittun með greinilegri dagsetningu.
  • Umslagið má síðan ekki opna fyrr en í réttarsal. (Skynsamlegt kann að vera að eiga fleiri en eitt umslag ef svo færi að höfundarréttur ykkar yrði véfengdur oftar en einu sinni. Umslag, sem hefur verið opnað, gildir ekki eftir það sem sönnun höfundarréttar.)

Óskráður hönnunarréttur

Innan Evrópusambandsins verndar óskráður hönnunarréttur ytra útlit vöru, þ.m.t. lögun hennar, mynstur, áferð og skraut. Í lögum sumra ríkja (t.d. Bretlands) um óskráðan hönnunarrétt getur hann einnig verndað innri gerð þótt hún sé ekki sýnileg notandanum.

Óskráður hönnunarréttur er svipaður höfundarrétti að því leyti að hann kostar ekkert og veitir rétt til að hindra óleyfilega eintakagerð um árabil. Hins vegar er engin opinber skrá til um rétthafa og því getur verið erfitt fyrir menn að vita af hönnun annarra.

Óskráður hönnunarréttur getur verndað þá eiginleika hins hannaða sem eru nýir, sérkennandi og sem rekja má til „frelsis“ í hönnun. Hann getur ekki verndað hönnun sem er eftirlíking eða venjubundin, eitthvað sem leiðir hugann þegar í stað að annarri hönnun, né heldur þá hluta hönnunar sem afmarkast af notagildi og þurfa að falla að öðrum pörtum. Tökum sem dæmi nýstárlegan, hólfaðan teketil. Útlit hans getur verið með ýmsu móti og því notið verndar á grundvelli þess að hönnuðurinn hafi nýtt sér „frelsi“ sitt í hönnun. Hins vegar getur bremsuborði í ökutæki aðeins haft eina lögun ef hann á að passa við þau mál sem eru á bremsudiskunum. Þar er því ekki um neitt „frelsi“ í hönnun að ræða og ekki er hægt að vernda slíkt.

Óskráður hönnunarréttur hefst sjálfkrafa um leið og hönnunin er sköpuð, en til þess að fyrir liggi sönnunargagn um frumdagsetningu er rétt að fylgja sömu aðferð og lýst er hér að ofan (innsiglaða umslagið) fyrir höfundarrétt. Það er vegna þess að einungis er hægt að höfða mál vegna stuldar á hönnun ef hægt er að sanna að hönnunin sé eftirlíking, fremur en að eitthvað sem líktist hinu hannaða hafi orðið til af hendingu.

Þótt óskráður hönnunarréttur geti oft komið að notum, sem hluti af samspili hugverkaréttinda, veitir hann einn og sér ekki sterka vernd.

Skráning hönnunar

Með formlegri skráningu fæst traustari vernd fyrir hönnun og getur hún enst allt að 25 árum. Sækja má um hana hjá flestum einkaleyfastofum ríkja eða hjá Vörumerkja- og hönnunarskrifstofa ESB og nægir þá ein umsókn til skráningar í öllu Evrópusambandinu.

Skilyrði eru hin sömu og eiga við óskráðan höfundarrétt, þ.e. til þess að gild skráning fáist þarf hönnunin að vera ný, sérkennandi og afurð „frelsis“ í hönnun. Sama skráningin getur verndað mynstur, skreytingu, flúr og einkennismerki, sem umsóknarhæf eru, þótt þau séu notuð á margs konar varning (til dæmis blómamyndir sem notaðar eru á borðdúka, rúmföt, gluggatjöld, borðbúnað o.s.frv.)

Lögsækja má hvern þann sem býr til, selur, notar eða flytur inn vörutegundir sem líkjast þeirri sem skráð er. Ekki er nauðsynlegt, gagnstætt því sem gildir um óskráðan höfundarrétt, að sanna að tiltekinni hönnun hafi verið stolið, einungis að útlit hennar sé svipað. Eigandi skráðrar hönnunar má jafnvel véfengja það sem líkist hans hönnun af tilviljun.

Umsóknarferlið er hraðvirkt og kostar tiltölulega lítið, en yfirleitt er ekki vit í því að skrá hönnun nema að ytra útlit uppfinningar skipti miklu um sölu hennar.

Vörumerki

Vörumerki getur verið orð, slagorð, einkennismerki eða blanda af þessu, eitthvað sem greinir vöru eða þjónustu frá öðrum. Ef vörumerki eru rétt notuð og þeim viðhaldið hafa þau ótímabundið gildi þannig að vörumerki tengt vinsælu vöruheiti getur verið eiganda sínum gríðarlega verðmætt.

Einkaleyfastofur ríkja sjá um samþykki og skráningu vörumerkja og þar er sótt um slíkt. Ef merkið á að hafa fjölþjóðlegt gildi er annaðhvort hægt að sækja um alþjóðlegt vörumerki samkvæmt Madrídarkerfinu í umsjón Alþjóðahugverkastofnunarinnar eða ESB-vörumerki (sem gildir innan Evrópusambandsins) hjá Vörumerkja- og hönnunarskrifstofu ESB. Ef komast á hjá vandamálum þarf líklega að leita til lögfræðinga á sviði vörumerkja. (Margir lögfræðingar á sviði einkaleyfa starfa einnig á sviði vörumerkja)

Vörumerki vernda ekki hugmyndir eða vörutegundir sem slíkar. En vörumerki getur verið mjög gagnleg langtímafjárfesting fyrir þá sem vilja markaðssetja eigin uppfinningar. Vörumerkið gæti á endanum orðið  dýrmætasta form hugverkaréttindanna.

Einkaleyfi

Í flestum ríkjum er til regluverk um einkaleyfi og er tilgangur þess að örva þróun nýrrar tækni. Einkaleyfi er ein mynd löglegrar einokunar, rétturinn til að segja: „Þetta á ég og þetta verður ekki notað nema ég fái greitt fyrir“. Þennan rétt veita ríkisstjórnir sem umbun fyrir að hugmyndir séu birtar almenningi. Það er allt og sumt.

Mikilvægt er að átta sig á möguleikum og takmörkunum einkaleyfa. Viðskiptalegt gildi hugmyndar eykst ekki endilega þótt einkaleyfi sé fengið á henni. Ef staðreyndin er sú að enginn kærir sig um tiltekna uppfinningu, er einkaleyfi ekki líklegt til að breyta neinu þar um. Hafi uppfinning hins vegar möguleika á markaði getur einkaleyfi verið eina leiðin til að tryggja að hægt sé að hagnast á henni fjárhagslega. Margir uppfinningamenn vörutegunda, sem náð hafa árangri á markaði, viðurkenna að fjárhagslegur ávinningur þeirra sé nær eingöngu að þakka sterkri einkaleyfisvernd.

Kostnaður og umstang við öflun einkaleyfis getur valdið mörgum uppfinningamanninum vanda. Þess vegna ætti aldrei að sækja um einkaleyfi án þess að íhuga vandlega ýmsa þætti (sjá síðar). Æskilegast er að leita aðstoðar sérfræðings á sviði einkaleyfa áður en ákvörðun er tekin.

Ef þið ákveðið að taka slaginn ættuð þið að láta sérfræðing á sviði einkaleyfa koma fram fyrir ykkar hönd í hinu langvinna, flókna og smásmugulega umsóknarferli. Án aðstoðar sérfræðings er mikil hætta á að gerð séu mistök sem geta leitt til þess að engin virk einkaleyfisvernd fáist. Þá geta horfurnar á á hagnaði orðið daprar.

Almennt gilda einkaleyfi í tuttugu ár, en þó aðeins ef af þeim eru greidd árgjöld til endurnýjunar.