Rannsóknarleiðbeiningar

 •  Þið þurfið líklega að vinna markaðsrannsóknir ykkar sjálf. Fagleg rannsóknarvinna er oft dýr og ef hugmynd ykkar er enn á huglægu stigi er hætt við að utanaðkomandi aðilar skilji hana ekki til fulls.
 • Mögulegt kann að vera að fá ódýra rannsóknaraðstoð í háskólum. Sumar háskóladeildir geta þurft á raunverulegum viðfangsefnum að halda fyrir rannsóknarverkefni nemenda, en gallinn er sá að geta nemenda er misjöfn, þannig að gæði vinnunnar eru ekki tryggð.
 • Allar rannsóknir ykkar þurfa að líta fagmannlega út. Það skiptir máli vegna þess að á einhverju stigi kunnið þið að þurfa að leggja vinnu ykkar fyrir aðra fagmenn, t.d. sem gögn með umsókn um fjármögnun.
 • Notið aðeins áreiðanlegar heimildir eða upplýsingar frá fyrstu hendi og skráið hverja heimild. Gerið aldrei það sem sumir uppfinningamenn gera, að leggja fram til stuðnings safn greina úr almennum dagblöðum og tímaritum.
 • Neytendakönnun getur virst vænleg hugmynd, en margt fólk segir eitt við rannsakendur og gerir svo allt annað síðar. Þess vegna geta kannanir verið slakar vísbendingar um raunverulega kauphegðun fólks.
 • Treystið ekki umsögnum fjölskyldu og vina! Flestir munu segja ykkur ósatt, annaðhvort til að forðast þrætur eða vegna þess að þeir vilja ekki særa tilfinningar ykkar.
 • Hunsið ekki þá sem eru á annarri skoðun en allir aðrir. Þetta geta verið þeir einu sem koma auga á meiri háttar veikleika í hugmyndinni.

Ódýrar eða ókeypis upplýsingaveitur

 • Fyrst og fremst veraldarvefurinn. Gætið samt að ykkur því upplýsingar, sem þar er að finna, eru oft á tíðum úreltar eða ónákvæmar.
 • Á ýmsum skólabókasöfnum og stórum almenningsbókasöfnum eru viðskiptadeildir þar sem starfa hjálplegir bókasafnsfræðingar með sérfræðiþekkingu í staðreyndaleit.
 • Notið esp@cenet til þess að skoða nýlegar einkaleyfisumsóknir. Það getur gefið vísbendingar um þær vörur og þá tækni sem stórfyrirtæki eru að vinna í.
 • Heimsækið þær kaupstefnur og vörusýningar sem varða hugmynd ykkar. Ræðið við fólk og komist að því hver er að gera hvað.