Nýnæmi

Hugmynd ykkar ætti að sjálfsögðu að vera frábrugðin þeim vörum sem fyrir eru eða þeim hugmyndum sem settar hafa verið á blað. En það mun ekki nægja að hún sé svolítið frábrugðin. Hugmynd ykkar þyrfti að búa yfir skýrum tæknilegum eða viðskiptalegum yfirburðum yfir þær vörur og hugmyndir sem fyrir eru.

Þessa yfirburði þyrfti einnig að vera hægt að vernda tryggilega með lögum, því yfirleitt eru það aðeins tryggilega vernduð hugverkaréttindi sem hafa eitthvert markaðslegt gildi. Við komum nánar að þessu í 6. kafla

Ef meta á nýnæmi hugmyndar ykkar, þarf að skoða í smáatriðum allar vörur og einkaleyfi sem fundust við leit. Sérhver þáttur í hugmynd ykkar, sem finna má í eldri vörum og hugmyndum, dregur úr nýnæmi hennar. Og allt sem dregur úr nýnæmi hugmyndar ykkar er einnig líklegt til að draga úr mögulegu viðskiptagildi hennar.

Að meta einkaleyfi

Mikilvægt: Þetta er verkefni sem vinna þarf af kostgæfni, en einkaleyfi geta oft verið flókin og hátæknileg. Þið gætuð því þurft á hjálp einkaleyfasérfræðings að halda við að leysa úr sumu eða öllu því sem hér fer á eftir. Ef þið teljið að hugmynd ykkar eigi góða markaðsmöguleika er því fé vel varið.

1.    Listið upp eftir mikilvægi þá eiginleika hugmyndarinnar sem falla undir nýnæmi.

2.    Safnið saman öllum einkaleyfum sem þið hafið fundið og virðast tengjast hugmynd ykkar.

3.    Leitið í þaula í hverju einkaleyfi að atriðum sem líkjast hugmynd ykkar. Skoðið sérstaklega gerðar kröfur eða samþykktar við útgáfu leyfisins og opinberar leitarskýrslur. (Ef slík skýrsla vitnar til annarra einkaleyfa getur einnig þurft að skoða þau.)

4.    Strikið út af lista ykkar hvern þann eiginleika sem þið finnið í þekktri tækni.

5.    Hversu margir eiginleikar hugmyndar ykkar eru eftir á listanum þegar þessari vinnu er lokið? Ef einn eða fleiri aðaleiginleikar hennar eru dottnir út er ekki víst að það sem eftir er sé nægilega öflugt til að hafa umtalsvert markaðsgildi.

Er rúm fyrir hugmyndina?

Ef einkaleyfi á tilteknu tæknisviði eru mjög mörg er útlitið e.t.v. ekki sérlega bjart fyrir nýjar hugmyndir. Í dag eru t.d. til um sextíu einkaleyfi á fljótandi sápu. Þar sem þessi vara er fremur einföld í framleiðslu hlýtur maður að spyrja sig hversu öflug mörg þessara einkaleyfa geti í raun verið. Sá sem fengið hefur enn eina hugmynd að fljótandi sápu getur átt erfitt með að tryggja vernd hugverksins.

Hvers er hvað?

Gagnlegt er að átta sig á því, hver á þau einkaleyfi sem mest tengjast hugmynd ykkar. Ef stórfyrirtæki eru fyrirferðarmiklir eigendur hugverkaréttinda á „ykkar“ tæknisviði gæti reynst erfitt að keppa við þau jafnvel þótt hugmynd ykkar væri frábrugðin öllum þeirra. Fyrir kemur að uppfinningamenn hafa betur í slíkum átökum Davíðs við Golíat, en til að svo megi verða þarf hugmyndin að eiga framúrskarandi markaðsmöguleika ef nokkur von á að vera um árangur, ekki síst þegar að því kemur að laða að fjárfesta.