Ný framkvæmd 1. febrúar n.k. - umsóknir um skráningu vörumerkja frá ríkjum utan PS/WTO

30/01/2017

Einkaleyfastofan vekur athygli á því að í 33. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki (vml.) kemur fram að þegar umsækjandi hvorki rekur starfsemi né er búsettur í ríki sem er aðili að Parísarsamþykktinni um vernd eignaréttinda á sviði iðnaðar eða samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (WTO) ber honum að sanna að hann hafi fengið samsvarandi merki skráð í heimalandi sínu fyrir þær vörur og/eða þjónustu sem umsókn hans tekur til. Í 5. tl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 310/1997 um skráningu vörumerkja o.fl. segir enn fremur að Einkaleyfastofan geti krafist staðfests vottorðs um skráningu í heimalandi.

Frá 1. febrúar 2017 mun Einkaleyfastofan fara fram á slíka staðfestingu í þeim tilvikum sem umsækjandi er ekki búsettur í aðildarríki Parísarsamþykktarinnar eða WTO. Einnig er unnt að leggja fram staðfestingu á því að fyrirtæki sé með starfsemi eða að einstaklingur sé með ríkisborgararétt í  aðildarríki Parísarsamþykktarinnar eða WTO til að fullnægja skilyrði 1. mgr. 33. gr. vml. Lista yfir þau ríki sem aðilar eru að fyrrnefndum samningum má nálgast hér.

Skilyrði 1. mgr. 33. gr. vml. mun einungis taka til umsókna um skráningu vörumerkja sem berast Einkaleyfastofunni 1. febrúar 2017 og síðar.