Að fá aðstoð við uppfinninguna

Uppfinningamönnum stendur oft ekki mikil aðstoð til boða með uppfinningar sínar. Hins vegar eiga smáfyrirtæki í nýsköpun fjölmarga möguleika á að fá aðstoð. Þess vegna getur það verið þess virði að stofna fyrirtæki til að hagnýta sér uppfinningu sína. Sem fyrirtæki með hugmynd á tilteknu stigi vöruþróunar eigið þið frekar rétt á að fá einhverja aðstoð.

(Markmið fyrirtækis ykkar getur verið hvort sem er að framleiða og selja fullmótaða vöru eða að þróa uppfinninguna á það stig að stærra fyrirtæki geti fjárfest í henni eða keypt nytjaleyfi fyrir hana hjá ykkur.)

Að safna fé

Alltaf er erfitt að safna fé fyrir uppfinningu, en það er ekki ómögulegt. Þeim mun minni sem áhættan er fyrir fjárfesta, þeim mun líklegra er að þið getið fengið fjármagn. Fjármögnun er í grundvallaratriðum tvenns konar og þið gætuð þurft á báðum tegundum að halda:

  • Fjárfesting „fjölskyldu og vina“. Á fyrstu stigum uppfinningar er líklegt að eina von ykkar sé tiltölulega litlar fjárupphæðir fengnar hjá fólki sem (a) þekkir ykkur vel og (b) er fúst til að veðja á að hugmynd ykkar muni skila þeim góðum launum fyrir lítið framlag í upphafi. Ekki er líklegt að aðrir fjárfestar hafi áhuga, til þess eru óþekktu stærðirnar of margar og áhættan of mikil.
  • Formleg fjárfesting. Stærri upphæðir kunna að vera í boði þegar uppfinning ykkar hefur (a) öðlast sæmilega tryggar framtíðarhorfur, sem t.d. hefur verið sýnt fram á með sölu á vöru og (b) viðskiptaáætlun (8. kafli).

Hvað þurfið þið mikið fé?

Margir uppfinningamenn skaða möguleika sína með því að fara fram á óraunhæfar fjárupphæðir en það getur verið alveg jafn óraunhæft að biðja um of lítið eins og of mikið.

Miklu máli skiptir að reikna heildar kostnaðinn við þróun uppfinningar ykkar eins nákvæmlega út og ykkur er unnt. Ekki er víst að það sé auðvelt, en hver sá sem hefur reynslu af því að meta fjárfestingartilboð mun þegar í stað sjá hvort þið hafið reynt.

Gagnlegt getur verið að leita ýmis konar faglegrar ráðgjafar svo greina megi allan þann kostnað sem liggur að baki því að þróa nýja vöru eða tækni. Auðvelt er að láta sér sjást yfir mikilvæga kostnaðarliði eða vanmeta þá ef þið hafið aldrei gert slíka útreikninga fyrr.

Þið þurfið ekki að kostnaðarreikna allt upp á krónu, en þið verðið að leggja fram tölur sem reynsluboltar geta litið á og sagt: „Já, þetta er nærri lagi“.

Til dæmis getur kostnaður við einkaleyfi verið umtalsverður. Hann er býsna fyrirsjáanlegur til nokkurra ára þannig að einkaleyfasérfræðingur ykkar ætti að geta gefið raunhæfar tölur.

Óráðlegt getur verið að óska eftir fé til að mæta einkaútgjöldum. Margir fjármagnseigendur munu líta svo á að með því sé verið að auka áhættu þeirra en draga úr ykkar. Þeir kunna einnig að draga í efa hversu fús þið séuð að fylgja uppfinningu ykkar eftir ef þið viljið engu fórna fyrir hana. Ef þið teljið nauðsynlegt að taka persónulegar tekjur ykkar með í dæmið verðið þið að færa rök fyrir því í viðskiptaáætluninni.

Þurfið þið í raun utanaðkomandi fjármagn?

Markmið viðskipta er að græða peninga fremur en að eyða þeim þannig að þið skuluð finna allar mögulegar leiðir, sem færar eru, til að skera kostnað niður áður en þið afráðið að utanaðkomandi fjármagns sé þörf.

Lykillinn að góðum árangri margra uppfinninga er til dæmis kunnáttusamleg markaðssetning. Ef þið getið fengið pantanir á vöru ykkar áður en hún fer í framleiðslu getur verið að þið þurfið ekki utanaðkomandi fjármagn. Jafnvel þótt þær pantanir séu ekki greiddar fyrirfram getur framvísun þeirra liðkað fyrir um lánstraust hjá framleiðanda eða kannski fæst banki til að fjármagna kostnað þar til greiðslur viðskiptavina skila sér. Einnig er hægt er að bjóða viðskiptavinum afslátt ef þeir borga fljótt.

Gróðinn verður kannski ekki mikill í byrjun, en í fyrsta lagi hafið þið hleypt vöru ykkar af stokkunum með árangri og í öðru lagi hafið þið aðeins greitt kostnaðinn af því að selja vöruna, en ekki því sem kostaði að búa hana til.