Leit að þekktri tækni

Nú förum við stig af stigi í gegnum tvö leitarferli á þekktri tækni, vöruleit og einkaleyfisleit.

Til þess að vera viss um að vönduð leit hafi verið gerð þarf að ljúka báðum ofangreindum ferlum. Þetta þarf einnig að gera áður en umtalsverðum tíma og peningum er varið í hugmyndina sem um ræðir.

Viðvaranir!

  • Hugsanlega tekur ekki nema fáar mínútur að finna þekkta tækni á veraldarvefnum. Það er næstum öruggt að ef þið leitið ekki uppi þekkta tækni, munu fyrirtæki og fjárfestar gera það. Ekki er líklegt að þau leggi fram fé eða aðstoð ef þau finna að uppfinningamanninum hefur yfirsést þýðingarmikil tækni.
  • Hunsið ekki gögn þó ykkur líki þau ekki. Tilgangurinn með leit er að leita að gögnum sem manni hugnast kannski ekki allt of vel.
  • Þótt engin þekkt tækni finnist þegar þið framkvæmið leit verður það ekki endilega alltaf svo. Rétt er að uppfæra leitina reglulega á meðan á vinnsluferli hugmyndarinnar stendur.
  • Frá sjónarhóli laganna gildir engin leit, ekki einu sinni rannsókn á vegum opinberrar einkaleyfastofu, sem endanleg sönnun þess að um nýnæmi sé að ræða.

Stig 1:   Að finna réttu leitarorðin

Rétt er að eyða nokkrum tíma í að velja þau leitarorð eða leitarhugtök sem best lýsa hugmyndinni sem unnið er með.

Augljósustu leitarorðin koma oft að litlu gagni þegar leitarvélar eru notaðar. Tökum sem dæmi hugmynd að músagildru. Leitarorðið „músagildra“ kallar fram yfir tvær milljónir síðna, sem margar hverjar koma hugmyndinni ekkert við, og í slíkum fjölda er hvort eð er ekki hægt að leita.

En leitarorðin „nagdýragildra“ (er hún ekki einmitt það?) og „músaveiði“ (hvað gerir hún?) kallar fram 20.000 síður hið fyrra og 700 síður hið síðara. Ekki eru þetta heldur lágar tölur en líklegt er að hér komi flestar síðurnar málinu við, þannig að gagnlegra er að byrja leitina í þessum punkti.

Annað vandamál: Gagnlegustu leitarorðin gætu verið sértæk tækniorð sem ykkur eru ekki kunn. Til dæmis skipti læknisfræðilega íðorðið „útvær“ (extra-corporeal) höfuðmáli fyrir leit að útvortis gervihjarta sem sér um hringrás blóðs úr mannslíkama utan hans. Leitaraðili, sem ekki hefði læknisfræðilega þekkingu, myndi varla þekkja þetta orð, en líklega rekast á það við skoðun niðurstaðna úr öðrum leitarorðum. Því getur þurft að fara í nokkrar undirbúningsleitir svo finna megi betri lykilorð til að nota við nákvæmari leit síðar.

Einnig þarf að vara sig á nýjum hugtökum vegna nýrrar tækni, t.d. „sýndarmátun“ (virtual fit) um hugbúnaðarkerfi, sem á að koma í stað fatamátunar í búðum, og „fjarlækningar“ (telemedicine) um rafrænt eftirlit með sjúklingum á heimilum þeirra.

Stig 2:  Vöruleit

Hér þarf að komast að því hvað er nú þegar á markaði sem:

  • líkist hugmyndinni (þekkt tækni).
  • fæst við að leysa sama vanda (samkeppnishæf tækni).

Skoðið gamlar upplýsingar ekki síður en nýjar því úrelt tækni og ófáanlegar vörur geta verið þekkt tækni.

Skoðið fréttasíður, iðnaðarskýrslur og vefsíður kaupstefna og vörusýninga því vörur sem eru í þróun, en ekki enn komnar á markað, geta verið þekkt tækni. Hugsanlega er sérstök ástæða til að fylgjast með rannsóknastarfsemi háskóla því þar koma margar nýjar vörutegundir fram á sjónarsviðið, oft mörgum árum áður en þær birtast á markaði.

Auðvitað á líka að leita utan veraldarvefsins, í búðum, bókum, tímaritum, prentuðum verðlistum o.s.frv.

Talið einnig við fólk með reynslu er snertir hugmynd ykkar, t.d. verslunarfólk og heildsala sem hafa séð vörur koma og fara eftir því sem árin líða og gætu hafa séð hugmyndina ykkar þar á meðal. (Eftirlaunafólk, sem unnið hefur störf er snerta hugmyndina, geta verið mikilvægir upplýsingagjafar þar sem reynsla þess getur náð mun lengra aftur en þeirra sem nú vinna svipuð störf!) 

Stig 3:  Einkaleyfisleit

Þannig er með margar hugmyndir að einkaleyfisleit skiptir mun meira máli en vörurannsókn. Allmargar vörur á markaði eru ekki háðar einkaleyfi, en hinar eru líklega miklu fleiri sem tryggt hefur verið einkaleyfi fyrir en þær aldrei komist á markað.

Tvennu þarf að kunna skil á við einkaleyfisleit vegna uppfinningar:

1.    Að finna öll gögn um einkaleyfi sem komið geta uppfinningunni við.

2.    Að skilgreina mikilvægi þeirra niðurstaðna sem einkaleyfisleit skilar. Nánar verður fjallað um þetta í 4. kafla.

Hér á eftir er sagt frá því hvernig nota á https://worldwide.espacenet.com/ hinn opna gagnabanka Evrópsku einkaleyfastofunnar, en hann er byrjendum auðveldur í notkun.

Hvað sem því líður er ekki líklegt að þið náið sama árangri og fagmenn við þessar leitir, þannig að í ýmsum tilfellum má mæla með því að fá fagmenn til að sjá um þær (sjá Einkaleyfisleit fagmanna). Undantekning frá því er þegar þekkt tækni er svo algeng að leit ykkar lýkur á svipstundu!

Hvað tekur leitin langan tíma?

Hún getur tekið frá nokkrum mínútum, ef fyrstu leitarorðin eru nákvæm og upp í margar klukkustundir ef þekkt tækni er mjög algeng.

Það besta sem hægt er að ráðleggja ykkur er að vera búin undir að verja þeim tíma sem þarf til að þið getið verið örugg um að hafa leyst verkið vel af hendi. Verkefni ykkar er að finna sönnunargögn sem afsanna nýnæmi uppfinningarinnar. Þið vonist til þess að það mistakist, en ef að leitin á að vera vönduð þarf sú von að vera geymd í aftursæti hugans á meðan.

Í framhaldi af því, ef engin þekkt tækni finnst, gangið þá út frá því að þið séuð ekki að leita á réttu stöðunum.

Haldið áfram að leita þar til þið eruð sannfærð um að öllum steinum hafi verið velt við. Og skráið niður alla staði sem þið leitið á og allt sem þið finnið sem gæti skipt máli.

Vönduð og vel bókfærð rannsókn er nauðsynleg, því hvernig er annars hægt að sanna að engin þekkt tækni sé til?