Gæðamál

Einkaleyfastofan leggur metnað í að veita góða og faglega þjónustu og hefur unnið eftir vottuðu gæðastjórnunarkerfi ISO9001:2008 frá árinu 2013. Staðalinn fjallar m.a. um ábyrgð stjórnenda, stjórnun auðlinda, s.s. mannauðs, uppbyggingu ferla í kringum framleiðslu og þjónustu, mælingar á starfsemi og hvernig frávik eru greind til þess að stuðla að sífelldum umbótum.

Einn meginþáttur staðalsins snýr að því að hlusta á þarfir viðskiptavina og laga starfsemina að óskum þeirra eins og mögulegt er. Verkferlar eru skráðir í gæðahandbókinni, Fróða, sem er uppfærð reglulega eftir þörfum hverju sinni. Innri úttektir eru gerðar á skráðum ferlum en þær eru einn mikilvægasti þátturinn í því að viðhalda kerfinu og að halda því virku.

Forstjóri ber ábyrgð á gæðakerfi Einkaleyfastofunnar og sviðsstjórar bera ábyrgð á gæðum þeirrar starfsemi sem snýr að þeirra sviði. Gæðastjóri annast eftirlit með gæðakerfinu og virkni þess sem fulltrúi stjórnenda. Forstjóri fundar, að jafnaði, mánaðarlega með stjórnendum þar sem fjallað er um framkvæmd og þróun gæðakerfisins.