Nóvember tölublað ELS-tíðinda er komið út

15/11/2017

11. tölublað ELS-tíðinda er komið út. Eintakið má nálgast rafrænt hér.

Í nóvemberblaði ELS-tíðinda er tilkynnt um skráningu 367 vörumerkja. Af þeim eru 58 íslensk. Þar með er heildarfjöldi skráðra vörumerkja 3.902 á árinu, en það er aukning um 35% frá sama tímabili 2016. Í blaðinu er jafnframt tilkynnt um endurnýjun 271 vörumerkis.

Tvær landsbundnar einkaleyfisumsóknir eru auglýstar aðgengilegar í blaðinu, en önnur þeirra er íslensk og hin frá Suður Kóreu. Tilkynnt er um veitingu eins landsbundins einkaleyfis að þessu sinni en það er í eigu bandarísks fyrirtækis. Fjórar umsóknir um viðbótarvernd eru auglýstar að þessu sinni og tilkynnt um eitt veitt viðbótarvottorð. Þá er í blaðinu tilkynnt um gildistöku 130 evrópskra einkaleyfa hér á landi. Þar með hafa 1.286 evrópsk einkaleyfi tekið gildi hér á landi árinu en það er aukning um 18% frá sama tímabili í fyrra.

Þrjár landsbundnar hönnunarskráningar eru auglýstar í blaðinu að þessu sinni og 17 alþjóðlegar. Þá eru fjórar landsbundnar skráningar endurnýjaðar og fjórar alþjóðlegar. Veruleg aukning er sjáanleg í skráningum alþjóðlegar hönnunar milli ára en íslenskar skráningar standa í stað.

Í blaðinu að þessu sinni er óvenjumikið af tilkynningum um breytingar á íslenskum eigendum vörumerkja. Þær koma til af sjálfvirkri tengingu vörumerkjaskrár við þjóðskrá og fyrirtækjaskrá. Í tilvikum þar sem kennitala eiganda er skráð í vörumerkjaskrá og breyting hefur orðið á nafni og/eða heimilisfangi er breytingin auglýst í tíðindunum eigendum að kostnaðarlausu. Þessi þjónusta er liður í aukinni rafrænni þjónustu Einkaleyfastofunnar og hefur í för með sér að upplýsingar í vörumerkjaskrá eru réttari en verið hefur og þar með auðveldara fyrir Einkaleyfastofuna og viðskiptavini að nálgast eigendur skráðra vörumerkja.