Vörumerkjaskrá Einkaleyfastofunnar tengd við þjóðskrá og fyrirtækjaskrá

06/07/2017

Vörumerkjaskrá Einkaleyfastofunnar verður á næstu dögum tengd við þjóðskrá og fyrirtækjaskrá. Þetta þýðir að upplýsingar um íslensk fyrirtæki og einstaklinga sem eiga skráð vörumerki og hafa skráð kennitölur sínar hjá Einkaleyfastofunni uppfærast í vörumerkjaskrá samhliða breytingum í þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá.

Tengingarnar eru liður í aukinni rafrænni þjónustu við viðskiptavini Einkaleyfastofunnar. Eigendur vörumerkjaskráninga sem hafa íslenska kennitölu þurfa ekki lengur að tilkynna Einkaleyfastofunni um breytt nafn og/eða heimilisfang og greiða fyrir breytinguna heldur uppfærast upplýsingarnar rafrænt. Umsækjendur rafrænna umsókna um vörumerki þurfa nú einungis að skrá kennitölu umsækjandans og færast upplýsingar um hann þá beint úr þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá á eyðublaðið.

Breytingar í vörumerkjaskrá verða eins og áður birtar í ELS-tíðindum 15. hvers mánaðar.