Maí tölublað ELS-tíðinda er komið út

15/05/2017

5. tölublað ELS-tíðinda 2017 er komið út. Eintakið má nálgast rafrænt hér.

Í ELS-tíðindum að þessu sinni er auglýst skráning 371 vörumerkis. Þar með hafa verið skráð 1.980 merki á árinu samanborið við 1.228 á sama tíma í fyrra og er aukningin rúm 60%. Af skráðum merkjum það sem af er ári eru 244 í eigu íslenskra aðila, eða rúm 12%.

Samtals er tilkynnt um endurnýjun 303 vörumerkja að þessu sinni. Af þeim eru um 10% eldri en 30 ára en að meðaltali eru endurnýjuð merki 15 ára. Elsta erlenda merkið sem er endurnýjað nú er „Colgate“ en það var skráð árið 1947. Elstu, endurnýjuðu íslensku merkin eru þrjú merki í eigu Sjóklæðagerðarinnar; „Pólar kuldafatnaður“, „Vinyl glófinn“ og „Vír vinnuföt“ öll skráð árið 1987.

Ein landsbundin einkaleyfisumsókn er auglýst aðgengileg í blaðinu að þessu sinni en hún er í eigu Sæplasts á Dalvík. Tvö landsbundin einkaleyfi eru auglýst veitt; annað í eigu bandarísks aðila og hitt þýsks og hafa þar með verið veitt 15 landsbundin einkaleyfi á árinu, samanborið við 22 allt árið í fyrra. Í blaðinu er tilkynnt um gildistöku 81 evrópsks einkaleyfis hér á landi og eru þau þar með orðin 573 það sem af er ári. Þrjár umsóknir um viðbótarvernd eru auglýstar í blaðinu og fjögur veitt viðbótarvottorð, allt í eigu erlendra aðila.

Ein landsbundin hönnun í eigu íslensks aðila er auglýst í blaðinu og ellefu alþjóðlegar. Þá eru tvær landsbundnar skráningar auglýstar endurnýjaðar og níu alþjóðlegar.