Mars tölublað ELS-tíðinda er komið út

15/03/2017

Mars tölublað ELS tíðinda er komið út.

Árið 2017 fer vel af stað í starfsemi Einkaleyfastofunnar. Umsóknafjöldi er í góðu samræmi við áætlanir stofnunarinnar. Sem dæmi má nefna að umsóknir um skráningu vörumerkja eru 674 samanborið við 662 á sama tíma í fyrra. Aukningin skýrist eingöngu af fjölgun íslenskra umsókna, en þær eru 42% fleiri en á sama tíma í fyrra. Hlutfall íslenskra umsókna af heildarfjölda hefur vaxið nokkuð síðustu misseri og er um 22% eftir fyrstu tvo mánuði ársins samanborið við tæp 16% á sama tíma í fyrra. Þá hefur staðfestingum á evrópskum einkaleyfum fjölgað um 21% á milli ára.

Í þriðja tölublaði ELS-tíðinda þetta árið er tilkynnt um skráningu 571 vörumerkis, en það er að líkindum mesti fjöldi skráninga í einum mánuði frá upphafi. Til samanburðar má nefna að í nóvember 2008 voru skráð 564 vörumerki á Íslandi, en flestar þeirra umsókna bárust síðsumars það ár.

Í blaðinu er auk þess auglýst endurnýjun 238 vörumerkja. Á meðal merkja sem eru endurnýjuð að þessu sinni er orðmerkið PONTIAC sem var skráð hér á landi árið 1927 og er því 90 ára í ár. Meðalaldur endurnýjaðra merkja er 15,5 ár.

Þrjár landsbundnar hönnunarskráningar eru auglýstar í blaðinu að þessu sinni; tvær íslenskar og ein sænsk. Alþjóðlegar hönnunarskráningar eru að þessu sinni fjórtán. Endurnýjaðar hönnunarskráningar eru fimm í blaðinu.

Eins og áður sagði hefur staðfestingum á evrópskum einkaleyfum fjölgað mikið milli ára eftir metár árið 2016. Í marsblaði ELS-tíðinda er auglýst gildistaka 148 evrópskra einkaleyfa og er það sjöundi mánuðurinn í röð þar sem fleiri en 100 evrópsk einkaleyfi taka gildi hér á landi. Nú eru 5.500 evrópsk einkaleyfi í gildi hér á landi samanborið við tæplega 5.000 á sama tíma í fyrra.

Í blaðinu eru auglýst tvö landsbundin einkaleyfi; eitt íslenskt og eitt japanskt. Tvær umsóknir um viðbótarvernd og þrjú veitt viðbótarvottorð eru auglýst í blaðinu, allt í eigu erlendra aðila.