Metfjöldi einkaleyfa veitt af Evrópsku einkaleyfastofunni árið 2016

08/03/2017

Aldrei hafa verið veitt fleiri einkaleyfi af Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) en árið 2016 samkvæmt nýútkominni ársskýrslu stofnunarinnar. Alls voru veitt um 96 þúsund einkaleyfi í fyrra sem er aukning um 40% frá árinu 2015.

Um 160 þúsund einkaleyfaumsóknir voru lagðar inn hjá EPO árið 2016 sem er svipaður fjöldi og árið áður. Um helmingur allra umsækjenda eru evrópskir en þar koma flestar umsóknir frá Þýskalandi, Frakklandi og Sviss. Utan Evrópu eru Bandaríkin með flestar umsóknir með um fjórðung allra umsókna. Hinsvegar vekur athygli að mikil aukning er á umsóknum frá Kína og Suður Kóreu þar sem fjöldi umsókna jókst um 24,8% og 6,5%.

Líkt og árið 2015 er Phillips með flestar umsóknir einstakra fyrirtækja árið 2016 með 2.568 umsóknir, en fast á hæla Phillips fylgdu kínverska fyrirtækið Huawei og suður kóreska fyrirtækið Samsung með 2.390 og 2.316 umsóknir.

Fréttatilkynningu og árskýrslu EPO má sjá í heild sinni hér.