Ný auglýsing um flokkun vöru og þjónustu og breytingar varðandi flokk 35

16/02/2017

Ný auglýsing um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja var birt 15. febrúar 2017 og hefur hún fengið númerið 130/2017. Hún er aðgengileg hér.

Auglýsingin er í samræmi við 11. útgáfu NICE flokkunarkerfisins og gildir afturvirkt til 1. janúar 2017. Þær umsóknir sem lagðar hafa verið inn frá 1. janúar sl., sæta því rannsókn með hliðsjón af því.

Með auglýsingunni breytast viðmið varðandi heimild til endurflokkunar við endurnýjun merkja og er nú miðað þá útgáfu NICE flokkunarkerfisins sem í gildi er við endurnýjun hverju sinni. Breytingin þessi er afturvirk og fram til 1. júlí n.k. er mögulegt að óska eftir endurupptöku þeirra ákvarðana um endurflokkun sem teknar hafa verið frá 1. janúar 2014 á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. gr. auglýsingarinnar.

Varðandi flokk 35 hefur Einkaleyfastofan til þessa mælst til notkunar á eftirfarandi tilgreiningu þegar um verslunarstarfsemi er að ræða: Samansöfnun margvíslegra vara (þó ekki flutningur á þeim) til hagsbóta fyrir aðra, sem gerir viðskiptavinum kleift að skoða og kaupa þessar vörur á auðveldan og þægilegan hátt.

Í samræmi við framkvæmd annarra ríkja mun Einkaleyfastofan nú leyfa notkun hugtakanna  „smásala“ og „heildsala“ í stað ofangreindrar tilgreiningar en þær eru þýðingar á tilgreiningunum wholesale services og retail services í gagnagrunni Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) um flokkun vöru og þjónustu. Tilgreiningunum skulu fylgja nánari skýringar á því til hvaða vöru/þjónustu starfsemin tekur, s.s. „Smásala með fatnað og snyrtivörur“.