Markaðsmöguleikar

Þið haldið kannski að hugmynd ykkar eigi góða markaðsmöguleika, en annað skiptir þó meira máli sem er það að aðrir þurfa einnig að halda það.

Umtalsverðir markaðsmöguleikar þýða það að útlit fyrir sölu og hagnað er nægilega gott til þess að öll sú áhætta, sem hugmynd ykkar skapar, sé þess virði að taka hana.

Sérstaklega munu fyrirtæki þarfnast traustra gagna um að vara ykkar seljist, þar sem það eru þau sem geta þurft að verja hundruðum milljóna til að koma henni á markað. Í viðskiptum er ekkert til sem heitir vara sem getur ekki brugðist. Sumar nýjar vörur munu seljast vel en aðrar illa.

Flest fyrirtæki leita eftir:

  • Einhverju (oftast traustum hugverkaréttindum) sem getur komið þeim í lykilstöðu eða jafnvel einokunarstöðu á markaðnum.
  • Einhverju sem neytendur munu vilja taka fram yfir samkeppnisvörur.
  • Einhverju sem skilar góðum arði af fjárfestingu.
  • Einhverju sem opnar greiða og áhættulitla leið inn á markaðinn.

Hvaða gögn getið þið lagt fram úr rannsóknum ykkar sem sanna fyrirtækjum eða fjárfestum að hugmynd ykkar eigi möguleika á að uppfylla þessar kröfur?

Til leiðbeiningar má segja að nýjar vörur skiptist gróft í þrjá flokka:

  • Framúrskarandi vörur sem verða ráðandi á sínum markaði og skapa fordæmi.
  • Góðar en óspennandi vörur sem gefa fyrirtækjum möguleika á að auka hagnað sinn eða markaðshlutdeild.
  • Venjulegar vörur sem eru einungis enn einn valkosturinn af mörgum.

Í hvern þessara flokka haldið þið að flestir myndu setja ykkar hugmynd?

Leggja þarf mat á sérhvert álit sem þið hafið hingað til fengið frá fyrirtækjum eða einstaklingum með sérfræðiþekkingu á mörkuðum sem varða hugmynd ykkar. Skortur á jákvæðni í þeim gögnum gæti þýtt eitt af þrennu:

  • Viðskiptalegar horfur fyrir hugmynd ykkar eru slæmar.
  • Hugmynd ykkar þarf að hugsa upp á nýtt ef hún á að verða lífvænlegri á markaði.
  • Eina leiðin til að ná árangri kann að vera að stofna eigið fyrirtæki til að markaðssetja hugmyndina.