Lokasamningur og lífið eftir hann

Næsta skref í nytjaleyfisferlinu er að umskrifa greinar samkomulags yfir í löglegan lokasamning.

Það skjal er svo flókið og umfangsmikið að ábyrgðin á því verður að hvíla á löglærðum fulltrúa. Einungis þeir geta tryggt að lokasamningurinn sé samhljóða greinum samkomulags. 

Lítið ekki á lokasamningsferlið sem tækifæri til að ná betri samningi! Enn og aftur verður að ítreka að markmið samningaviðræðna er ekki að sigra heldur að ná samkomulagi. Sum ákvæðin eru kannski ekki eins ábatasöm og þið hefðuð kosið, en hver sú tilraun, sem gerð er til að breyta því sem áður var ákveðið (öðru en villum sem löglærðir fulltrúar ykkar hafa fundið), er líklegri til að eyðileggja samninginn en bæta hann.

Einn góðan veðurdag eftir langa mæðu, standið þið svo með nytjaleyfissamning í höndunum. Til hamingju!

En þar með er afskiptum ykkar þó ekki lokið. Þið þurfið, ásamt löglærðum fulltrúum ykkar, að fylgjast náið með því hvernig nytjaleyfissamningurinn virkar. Þið þurfið að tryggja að þóknunargreiðslur berist og að nytjaleyfishafinn standi sig í að selja uppfinningu ykkar.

Þið þurfið að fylgjast með því hvað samkeppnisaðilar eru að gera því sumir þeirra gætu freistast til að brjóta á hugverkaréttindum ykkar. Aðrir kynnu að endurbæta vörur sínar sem kallar á að þið endurbætið ykkar.

Þið gætuð einnig viljað kanna aðrar leiðir til þess nota hugverkaréttindi ykkar til að skapa aðra möguleika á að selja nytjaleyfi, kannski í samvinnu við fyrsta nytjaleyfishafann eða kannski sem algerlega sjálfstætt viðskiptaframtak.

Hvernig sem það nú fer, er vinnu ykkar sem eigenda verðmætra hugverkaréttinda ekki lokið. Fæstir uppfinningamenn, sem náð hafa þeim árangri, munu kveinka sér undan því!