Hvers vegna skiptir nýnæmi máli?

Skorti uppfinningu nýnæmi skiptir það máli með tvennum hætti:

  • Ólíklegt er að það taki því að afla hugverkaréttinda (6. kafli) fyrir hugmynd sem ekki er ný. Yfirleitt þýðir það að hugmyndin hefur lítið sem ekkert viðskiptalegt gildi. (Undantekningar frá þessu eru hugmyndir, sem byggja fremur á kunnáttusamlegri markaðssetningu en hugverkaréttindum, eða þegar rétthafi samþykkir að leigja hugverkaréttindin.)
  • Hugmynd, sem ekki er ný, getur ekki orðið lögmæt eign. Ef einhver annar á rétt á henni geta menn verið lögsóttir ef þeir reyna að hagnast á hugmyndinni án leyfis rétthafa. Ekki er heldur hægt að eigna sér hugmyndina þótt enginn lögmætur rétthafi finnist (til dæmis ef hugmyndin er gömul).

En jafnvel þótt hugmyndin sé ný er ekki víst að nýnæmið eitt og sér geri stóra hluti. Uppfinning þarf að vera markverð endurbót á þekktri tækni til þess að eiga góða viðskiptamöguleika.

Það fer eftir mörgum þáttum hvort uppfinning er markverð endurbót eða ekki. Sumar endurbætur kunna að vera tæknilega léttvægar, en hafa samt mikið markaðsgildi.

Áfastur opnunarhringur á drykkjardósum er til dæmis einföld tækni, en kostirnir við hann, þ.e. (a) hann er festur með hnoði sem gengur ekki gegnum dósarlokið og (b) neðra borð hans er mótað til að létta átak, gerðu hann að markverðri uppfinningu með gríðarlegu markaðsgildi.

Hins vegar getur hugmynd, sem hefur náð árangri á markaði, verið ný þótt hún sé ekki sérstaklega frumleg.

Rafmagnstannburstar voru til dæmis lengi of dýrir til að seljast að ráði. Þá datt einhverjum í hug að í þá væri hægt að nota mun ódýrari mótor. Verðið lækkaði og salan tók flugið. Þessi nýja gerð rafmagnstannbursta notaðist einfaldlega við vel kunnan mótor sem vann á vel þekktan hátt svo að ekki var um neina uppfinningu að ræða, en nýjungin, sem fólst í því að samtvinna mótor og tannbursta, skilaði miklum markaðslegum ávinningi.