Frumgerðatækni

Fyrsta frumgerð 

Fyrsta frumgerð er aðeins fyrir ykkur sjálf. Hana má gera úr hvaða ódýru efnum sem henta því enginn annar þarf að líta hana augum. Tilgangur hennar er:

 • að sannfæra ykkur sjálf um það, að hugmynd ykkar gangi upp.
 • að gera ykkur kleift að leysa eða a.m.k. greina tæknileg vandamál og hönnunarvanda.
 • að gera ykkur kleift að endurbæta hugmyndina með því að prófa ykkur áfram.

Notið tölvuhönnun sem mest á þessu stigi ef hægt er. Tölvuhönnun getur sparað umtalsverðan tíma og kostnað og veitt ykkur miklar viðbótarupplýsingar sem erfitt eða ómögulegt hefði verið að nálgast með áþreifanlegum frumgerðum.

Mælt er með því að skilja ekki við fyrstu frumgerð fyrr en öll vandamál hafa verið leyst og hönnun endurbætt eftir því sem kostur er. Þetta getur verið þreytandi en að líkindum er miklu erfiðara og dýrara að leysa vandamál eða endurhanna hugmyndina á síðari stigum.

Frágengnar frumgerðir eða frumgerðir til kynningar

Þetta eru frumgerðir sem verða notaðar til að kynna hugmynd ykkar öðru fólki, sérstaklega mögulegum fjárfestum eða nytjaleyfishöfum. Þær ættu að líkjast endanlegri vöru eins mikið og hægt er að útliti og virkni. Aðalástæður þess eru:

 • Flestir mögulegir fjárfestar eða nytjaleyfishafar vilja sjá hugmyndir með sem fæstum óleystum vandamálum vegna þess að slíkt dregur úr áhættu þeirra.
 • Það er á færi fárra að sjá fyrir sér fullfrágengna gæðavöru með því að horfa á grófa, lítt unna frumgerð.
 • Þeim mun líkari sem frumgerð ykkar er endanlegri vöru þeim mun betur verða ykkur ljósir helstu hönnunar-, framleiðslu- og kostnaðarþættir hugmyndar ykkar. Sú þekking kemur að ómetanlegu gagni þegar að því kemur að sannfæra fólk um hversu tæknilega og viðskiptalega lífvænleg hugmynd ykkar sé.

Þið gætuð þurft faglega aðstoð til að framleiða frágengna frumgerð. Þar gæti t.d. verið um að ræða vöruhönnuð eða fyrirtæki sem sérhæfir sig í frumgerðum. Það gæti borgað sig að leggja í þann kostnað ef það verður til þess að fólk átti sig betur á möguleikum uppfinningar ykkar annars vegar og ykkar eigin fagmennsku og dugnaði hins vegar.

Reynið samt að varast óþarfa kostnað ef þið skiptið við fagmenn. Dýrt er að láta hanna og smíða frumgerðina alveg frá grunni. Mun ódýrara getur verið að nota a.m.k. einhverja fjöldaframleidda íhluti eða hluti sem fengnir eru að „láni“ úr öðrum vörutegundum. Þið verðið að gera fjárhagsáætlun og vega saman gæði og kaupgetu og þið ættuð alltaf að véfengja allar tillögur sem auka kostnaðinn, en bæta virkni eða útlit aðeins lítillega.

Frágengin vara

Án efa er endanleg frumgerð söluhæfasta varan. Þannig getið þið sannað að hugmynd ykkar seljist, jafnvel þótt í smáum stíl sé og þið eigið nógar birgðir af sýnum til að flýta fyrir mati fyrirtækja. Þessi aðferð hentar ekki hvaða uppfinningu sem er, en rétt er að hafa hana í huga ef ekki munar miklu á kostnaði við eina frumgerð og kostnaði við tilraunaframleiðslu á t.d. 100 eintökum til viðbótar. Í flestum tegundum verksmiðjuframleiðslu felst aðalkostnaðurinn í uppsetningunni, en sjálf vöruframleiðslan er svo tiltölulega ódýr.

Virk frumgerð ásamt líkani

Ef þið hafið ekki efni á að búa til hágæðafrumgerð getur verið viðunandi kostur að leggja saman bestu útgáfuna af fyrstu frumgerð ykkar (til þess að sýna virknina) og óvirkt líkan (til þess að sýna útlit). Líkanið má búa til úr hvaða ódýru efni sem hentar, t.d. getur málaður viður táknað plast.

Stutt myndband

Myndband getur verið nauðsynlegt stuðningsgagn ef:

 • vinnuferli frumgerðar ykkar dregst á langinn.
 • sýning frumgerðar ykkar krefst heimsóknar á tiltekinn stað eða sérstaks umhverfis.
 • þið þurfið að sýna fólk að nota frumgerðina.
 • þið getið ekki treyst því að frumgerðin virki alltaf þegar til er ætlast.
 • þið þurfið að taka upp einstæðan atburð, t.d. þegar frumgerð ykkar er prófuð á móti samkeppnisvörum.

Klippið myndbandið niður í fárra mínútna lengd þannig að sýning þess taki ekki of langan tíma á dæmigerðum fyrsta fundi (sem oft er 30-45 mínútur).

Auðvelt er að fjölfalda myndband og það telst opinber birting þannig að þið skuluð gæta þess að hugmynd ykkar sé nægilega lögvernduð og að óviðkomandi fái ekki að horfa á myndbandið. Gætið einnig höfundarréttar á myndbandinu sjálfu (6. kafli).

Önnur stuðningsgögn

Meðal viðbótarefnis, sem getur hjálpað ykkur að kynna hugmynd ykkar, má nefna:

 • Vöruumbúðir. Dýrt getur reynst að búa til góðar umbúðir og borgar sig kannski ekki nema þið ætlið inn á markað þar sem umbúðir skipta meira máli en algengt er.
 • Drög að auglýsingu eða bæklingi þar sem sést hvernig þið sjáið markaðssetningu vörunnar fyrir ykkur.
 • Vefsíðu þar sem þið getið lagt inn upplýsingar um hugmynd ykkar. Þetta getur verið ódýr leið til að mæta þörfinni fyrir viðskiptaupplýsingar. Leitið samt ráðgjafar hjá sérfræðingi á sviði einkaleyfa svo tryggt sé að þið ljóstrið ekki neinu upp sem síðar getur teflt hugsanlegri einkaleyfisumsókn í tvísýnu.