Rafrænar umsóknir

 

Rafræn móttaka umsókna

Einkaleyfastofan móttekur eftirfarandi umsóknir rafrænt:*

 • Landsbundnar einkaleyfisumsóknir (sbr. 8. gr. ell.)
 • Yfirfærðar alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir (PCT) (sbr. 31. gr. ell.)
 • Evrópskar einkaleyfisumsóknir (EP/IS) (sbr. 3. mgr. 75. gr. ell.)

Athugið að rafræn móttaka þessara umsókna á einungis við umsóknargögn á umsóknardegi en ekki gögn sem síðar kann að þurfa að leggja inn til Einkaleyfastofunnar við meðferð umsóknanna.

Varðandi alþjóðlegar grunnumsóknir er tekið á móti eftirfarandi gögnum rafrænt:

 • Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir (PCT/IS) (sbr. 28. gr. ell.)
 • Gögn lögð inn síðar en á umsóknardegi varðandi alþjóðlegar umsóknir sbr. 28. gr. ell.

Varðandi evrópsk einkaleyfi, móttekur Einkaleyfastofan eftirtaldar beiðnir og tilheyrandi gögn rafrænt: **

 • Beiðni um staðfestingu evrópsks einkaleyfis á Íslandi (sbr. 77. gr. ell.)
 • Beiðni um staðfestingu evrópsks einkaleyfis á Íslandi í breyttri útgáfu (sbr. 77. gr. ell.)
 • Beiðni um birtingu leiðréttrar þýðingar staðfests evrópsks einkaleyfis (sbr. 1. mgr. 86. gr. ell.)
 • Beiðni um bráðabirgðavernd evrópskrar einkaleyfisumsóknar (sbr. 83. gr. ell.)
 • Beiðni um birtingu leiðréttrar þýðingar evrópskrar einkaleyfisumsóknar (sbr. 2. mgr. 86. gr. ell.)
 • Beiðni um takmörkun evrópsks einkaleyfis staðfestu á Íslandi (sbr. 40. gr. a ell.)

Einkaleyfastofan mun þó eftir sem áður taka við þessum umsóknum og gögnum á pappírsformi, fyrir þá sem það kjósa frekar. Önnur samskipti varðandi málin, s.s. beiðnir um greiðslu árgjalda, andmæli eða önnur samskipti, er ekki enn hægt að taka á móti rafrænt og verða því að berast Einkaleyfastofunni bréflega.

Til þess að leggja inn rafræna umsókn þarf að gera eftirfarandi:

 1. Vera með rafrænt skilríki
 2. Virkja skilríkið hjá Einkaleyfastofunni
 3. Setja upp Online Filing hugbúnaðinn á tölvuna sína

Upplýsingar um þetta er að finna undir viðeigandi köflum hér til hliðar.

Þegar umsækjandi leggur inn rafræna umsókn eða gögn varðandi evrópsks einkaleyfi, berst honum strax staðfesting með umsóknarnúmeri og umsóknardagsetningu. Séu alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir (PCT/IS) og evrópskar einkaleyfisumsóknir (EP/IS) lagðar inn rafrænt, er veittur afsláttur af umsóknargjaldi.

Einkaleyfastofan veitir alla frekari aðstoð á opnunartíma stofnunarinnar.

**Móttaka rafrænna gagna (6.12.2011)

Einkaleyfastofan hefur ákveðið, með vísan til 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum (ssl.), að bjóða umsækjendum upp á þann valkost að taka við ákveðnum gögnum varðandi evrópsk einkaleyfi, með rafrænum hætti. Í þessum tilvikum lítur Einkaleyfastofan svo á að rafræn undirskrift fullnægi kröfum um undirritun, með vísan í 38. gr. ssl., sbr. 4. gr. laga um rafrænar undirskriftir nr. 28/2001. Eftir sem áður verður þó hægt að leggja inn gögn með hefðbundnum hætti á pappírsformi.

Eftirfarandi beiðnir og tilheyrandi gögn, er hægt að leggja inn rafrænt:

 • Beiðni um staðfestingu evrópsks einkaleyfis á Íslandi (sbr. 77. gr. ell.)
 • Beiðni um staðfestingu evrópsks einkaleyfis á Íslandi í breyttri útgáfu (sbr. 77. gr. ell.)
 • Beiðni um birtingu leiðréttrar þýðingar staðfests evrópsks einkaleyfis (sbr. 1. mgr. 86. gr. ell.)
 • Beiðni um bráðabirgðavernd evrópskrar einkaleyfisumsóknar (sbr. 83. gr. ell.)
 • Beiðni um birtingu leiðréttrar þýðingar evrópskrar einkaleyfisumsóknar (sbr. 2. mgr. 86. gr. ell.)
 • Beiðni um takmörkun evrópsks einkaleyfis staðfestu á Íslandi (sbr. 40. gr. a ell.)

*Móttaka rafrænna umsókna (1.12.2010)

Einkaleyfastofan hefur ákveðið, með vísan til 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum (ssl.), að taka við einkaleyfisumsóknum með rafrænum hætti. Eftir sem áður verður þó hægt að leggja inn umsóknir á pappírsformi. Hér er því um nýjan valkost fyrir umsækjendur að ræða.

Með einkaleyfisumsóknum er átt við eftirfarandi umsóknir:

 • Landsbundnar einkaleyfisumsóknir (sbr. 8. gr. ell.)
 • Yfirfærðar alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir (PCT) (sbr. 31. gr. ell.)
 • Alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir (PCT/IS) (sbr. 28. gr. ell.)
 • Evrópskar einkaleyfisumsóknir (EP/IS) (sbr. 3. mgr. 75. gr. ell.)

Varðandi ofangreindar umsóknir er með vísan til 36. og 37. gr. ssl., fallið frá kröfum um að skila skuli umsókn til Einkaleyfastofunnar skriflega, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um einkaleyfi nr. 17/1991 með síðari breytingum (ell.), 2. gr. reglugerðar varðandi umsóknir um einkaleyfi nr. 574/1991 með síðari breytingum, auk kröfunnar um að skila inn umsóknargögnum í tvíriti skv. 4. gr. auglýsingar um reglur varðandi einkaleyfisumsóknir nr. 575/1991 með síðari breytingum. Þá lítur Einkaleyfastofan svo á, með vísan til 38. gr. ssl., sbr. 4. gr. laga um rafrænar undirskriftir nr. 28/2001, að fullgild rafræn undirskrift fullnægi kröfum um undirritun.

Áréttað skal að rafræn móttaka á einungis við umsóknargögn á umsóknardegi en ekki gögn vegna síðari meðferðar máls, s.s. umboð, framsöl, andmæli, árgjaldabeiðnir eða önnur bréfleg samskipti. Þá er enn ekki mögulegt að taka við beiðnum um staðfestingu evrópskra einkaleyfa hér á landi, með þessum hætti.