Einkaleyfaferlið

Aðeins er hægt að fá einkaleyfi á uppfinningu ef hún:

 • er ný og henni hefur ekki verið lýst áður.
 • sker sig úr með hugvitsamlegri hugsun sem ekki er augljóst sérfræðingi í viðkomandi tækni.
 • getur nýst í iðnaði, þ.e. ef mögulegt er að búa uppfinninguna til.

Í Evrópu nýtur tölvuhugbúnaður einn og sér verndar höfundarréttar en ekki einkaleyfa. Hins vegar má í Evrópu fá einkaleyfi á uppfinningum sem settar eru í tölvur með aðstoð hugbúnaðar, t.d. endurbættu gagnavinnslukerfi. Þið þurfið áreiðanlega aðstoð sérfræðings á sviði einkaleyfa við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum sem keyrðar eru í tölvum því að ekki er farið með þau mál á sama hátt í Evrópu og Bandaríkjunum.

Viðskiptaaðferðir geta verið einkaleyfishæfar í Bandaríkjunum, en ekki auðveldlega annars staðar.

Leitið alltaf aðstoðar sérfræðings ef þið eruð í vafa um hvort hugmynd ykkar sé einkaleyfishæf.

Nokkur atriði til íhugunar áður en sótt er um einkaleyfi

(Sjá líka Einkaleyfisáætlun síðar.)

 • Er einkaleyfi í raun og veru nauðsynlegt? Myndi eitthvert annað samspil hugverkaréttinda veita hugmynd ykkar næga vernd? Hér þurfa menn að vera ærlegir við sjálfa sig: Ræður ef til vill hégómleikinn för (möguleikinn á einkaleyfi í eigin nafni) fremur en viðskiptaleg nauðsyn?
 • Hafið þið gert ykkur grein fyrir heildarkostnaði við einkaleyfið (innifalin ættu að vera árgjöld til endurnýjunar í öllum löndum þar sem þið viljið njóta verndar)? Er líklegt að uppfinning ykkar skili svo miklum tekjum að hún réttlæti þennan kostnað? Að öllu eðlilegu ættuð þið ekki að sækja um einkaleyfi fyrr en þið hafið rannsakað viðskiptalega og fjárhagslega möguleika hugmyndar ykkar vandlega.
 • Er þetta rétti tíminn til að sækja um einkaleyfi? Umsókn kemur af stað atburðarás sem ekki verður stöðvuð. Ætlið þið að sækja um einkaleyfi snemma í ferlinu eða bíða þar til uppfinningin er tilbúin á markað og auðveldara er að fá fljótt upp í kostnað af hugverkaréttindunum? Stundum getur borgað sig að bíða en þar sem kringumstæður eru mismunandi ættuð þið alltaf að leita aðstoðar sérfræðings á sviði einkaleyfa.
 • Er líftími vörunnar, sem uppfinning ykkar skapar, stuttur? Einkaleyfisferlið tekur gjarnan þrjú til fjögur ár. Ef uppfinning ykkar er ætluð hörðum samkeppnismarkaði, þar sem vörum er fljótt skipt út eða þær endurbættar, kann einkaleyfi ykkar að vera orðið lítils virði þegar það hefur loks verið veitt.
 • Hver ætlar að greiða kostnaðinn af því að verja einkaleyfið? Einkaleyfastofur ríkja hvorki verja einkaleyfi né fylgjast með hvort á þeim sé brotið. Sú ábyrgð hvílir á eiganda einkaleyfisins eða nytjaleyfishafa. Einkaleyfi ykkar kann að veita takmarkaða vernd í raun, þar til leyfisgjöld eða sölutekjur skila nægilegu fjármagni til þess að hægt sé að verja einkaleyfið.
 • Hversu vel þolir einkaleyfi ykkar að vera véfengt í réttarsal? Þið munið sannarlega þarfnast aðstoðar sérfræðings á sviði einkaleyfa til að meta styrk einkaleyfiskrafnanna. Það er mikilvægt vegna þess að oft er það lögmæti einkaleyfiskrafna sem er véfengt, venjulega af samkeppnisaðilum sem vilja líkja eftir vel heppnaðri vöru. Takist þeim það, getið þið setið uppi með einskis vert einkaleyfi og að auki þurft að greiða málskostnað sigurvegarans.

Að sækja um einkaleyfi

Einkaleyfisumsókn er lögformlegt ferli sem er bundið í stífan tímaramma með eindögum sem yfirleitt eru ósveigjanlegir.  Þetta er ekkert sem menn stökkva í! Líkurnar á að eignast verðmætt einkaleyfi eru mestar ef þið:

 • kynnið ykkur umsóknarferlið í smáatriðum.
 • setjið ykkur það markmið að sækja ekki um í fljótheitum heldur samkvæmt áætlun, á þeim tíma og af þeirri ástæðu sem kemur sér best fyrir hagnýtingaráætlanir ykkar. (Sjá Einkaleyfisáætlanir hér á eftir.)
 • nýtið þjónustu sérfræðings á sviði einkaleyfa! Ekki gera allt sjálf, hættan á mistökum er of mikil.

Hér eru aðeins örstuttar leiðbeiningar um umsóknarferlið fyrir evrópsk einkaleyfi samkvæmt Evrópska einkaleyfasamningnum. (Sjá www.epo.org/patents/One-Stop-Page.html.) 

Einkaleyfisumsókn til einkaleyfastofu ríkis fer að mestu eftir þrepunum sex hér á eftir, en umsóknin þarf oftast að vera á þjóðtungu ríkisins.

Umsóknir um alþjóðlegt einkaleyfi í gegnum Samstarfssáttmálann um einkaleyfi fylgja allar sama ferlinu sem lýst er í fyrstu fjórum þrepunum, en þrjátíu mánuðum eftir að sótt hefur verið um fer umsóknin í gegnum þrep 5 og 6 hjá einkaleyfastofum í hverju því landi eða svæði þar sem óskað er verndar. Frekari upplýsingar um Samstarfssáttmálann um einkaleyfi er að finna á vefsíðunni www.wipo.int/pct .

Hvaða leið valin er til að sækja um einkaleyfi (í gegnum Evrópska einkaleyfasamninginn, Samstarfssáttmálann um einkaleyfi, einkaleyfastofu ríkis eða svæðis eða blöndu af þessu) fer eftir ýmsu, m.a.:

 • hver uppfinning er.
 • hvernig viðskiptaáætlun er.
 • hve miklu fjármagni þið ráðið yfir.
 • hvaða markað þið ætlið inn á.
 • hvaðan líklegast er að vörur komi sem brjóta á rétti ykkar.

Sérfræðingur á sviði einkaleyfa mun geta leiðbeint ykkur um hvaða leið henti ykkur og uppfinningu ykkar best.

1. þrep  Að hefja ferlið

Sérfræðingur ykkar á sviði einkaleyfa verður að leggja fram gögn sem innihalda:

 • einkaleyfisumsókn.
 • upplýsingar um umsækjandann (ykkur).
 • lýsingu á uppfinningunni.
 • kröfur.
 • teikningar (ef einhverjar).
 • ágrip.

Einnig þarf að greiða gjald. Áríðandi er, svo að varast megi tafir, að öll gögn falli sem nákvæmast að hinni opinberu forskrift. Sérfræðingur ykkar mun sjá til þess að svo verði. Hjá Evrópsku einkaleyfastofunni er tekið við umsóknum á ensku, frönsku eða þýsku.

Til þess að sérfræðingurinn nái að matreiða allar upplýsingar um uppfinningu ykkar þurfið þið að starfa náið saman. Gangið ekki út frá að þið vitið alltaf betur vegna þess að þetta sé ykkar uppfinning. Þið verðið að treysta fagmennsku og dómgreind sérfræðingsins því einkaleyfisumsókn er mikil flækja lögfræði og tækniatriða. Sérstaklega þarf að vanda til þess hvernig kröfurnar eru settar fram, því þær eru mikilvægasti hluti hvers einkaleyfis.

2. þrep  Skráningardagur og frumathugun

Ef gögn ykkar virðast í lagi fær umsókn ykkar umsóknardag, sem einnig er nefndur forgangsréttardagur. Eftir að umsóknin hefur verið lögð inn fer fram athugun formsatriða til þess að tryggja að gögnin, sem óskað er eftir, séu öll komin fram og í lagi.

Innan árs getið þið svo sótt um einkaleyfisvernd í öðrum löndum og fengið þær umsóknir meðhöndlaðar eins og þær hefðu verið lagðar inn á forgangsréttardegi ykkar. Í reynd færir þetta ykkur heilt ár til að ákveða hversu víðtækri einkaleyfisvernd þið hyggist óska eftir.

3. þrep  Leit

Þið fáið senda leitarskýrslu með skrá yfir öll skjöl um þekkta tækni, ásamt afritum af þeim, sem vanur rannsakandi hefur fundið og talið skipta máli fyrir uppfinningu ykkar. Leitin er að mestu byggð á því sem fram kemur í kröfum ykkar um nýnæmi, en lýsing ykkar og allar teikningar eru einnig teknar með í reikninginn. Í skýrslunni kemur oft fram frumálit á einkaleyfishæfi uppfinningar ykkar.

4. þrep  Birting

Umsókn ykkar er birt átján mánuðum eftir umsóknardag. Uppfinning ykkar mun þá birtast í gagnasöfnum víða um heim og vera aðgengileg hverjum sem er. Hún gildir þá sem þekkt tækni gagnvart öllum þeim umsóknum um einkaleyfi fyrir svipaðar uppfinningar sem aðrir uppfinningamenn eða fyrirtæki kunna að leggja inn um ókomna tíð.

Þið hafið síðan sex mánuði í viðbót til að taka tvær ákvarðanir:

 • Ætlið þið að halda áfram með umsókn ykkar? Þið gefið það til kynna með því að fara fram á nákvæmari („efnislega“) rannsókn.
 • Hvaða lönd ætlið þið að hafa með („tilnefna“) í einkaleyfisvernd ykkar? Tilnefningargjöld verður að greiða.

Þegar ykkur hefur verið veitt einkaleyfi getið þið krafist bóta fyrir brot á rétti allt aftur til birtingardagsetningar umsóknar ykkar. Í sumum ríkjum er þó ekki hægt að nýta þennan rétt nema þýðing á kröfum ykkar hafi verið send einkaleyfastofu ríkisins og hinar þýddu kröfur gefnar út af henni.

5. þrep  Efnisleg rannsókn

Ef þið farið fram á efnislega rannsókn verður Evrópska einkaleyfastofan að ákveða hvort uppfinning ykkar og umsókn uppfylli kröfur Evrópska einkaleyfasamningsins. Rannsakendur Evrópsku einkaleyfastofunnar eru venjulega þrír, svo fyllsta hlutleysis sé gætt, og er einn þeirra tengiliður við sérfræðing ykkar. Á þessu stigi hafa oft rannsakendur og sérfræðingur samskipti sín á milli og niðurstaða þess getur orðið sú að mikilvæga hluta umsóknar ykkar verði að umskrifa. Sérfræðingur ykkar mun halda uppi vörnum fyrir umsókn ykkar og það er enn ein ástæða þess hversu nauðsynlegt er að hafa fagmann sem fulltrúa.

6. þrep  Einkaleyfið veitt

Ákveði rannsakendur að veita einkaleyfi og hafi öll gjöld verið greidd og allar nauðsynlegar þýðingar lagðar inn, er sú ákvörðun auglýst í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Ákvörðun um veitingu tekur gildi þegar hún er birt.  

7. þrep Staðfesting

Það sem þið hafið núna í höndunum er evrópskt einkaleyfi. Þegar Evrópska einkaleyfastofan hefur veitt einkaleyfið og auglýst ákvörðunina þarf, innan ákveðinna tímamarka, að staðfesta einkaleyfi ykkar í hverju því ríki sem þið hafið tilnefnt. Sé það ekki gert má vera að ekki verði hægt að framfylgja einkaleyfinu í viðkomandi ríki. Í sumum ríkjum getur staðfesting falið í sér að leggja þurfi inn (og greiða) þýðingu á öllu einkaleyfinu eða einungis þeim kröfum sem fallist var á.

8. þrep  Andmæli

Þriðji aðili getur andmælt einkaleyfi sem veitt hefur verið. Yfirleitt er þar um að ræða samkeppnisaðila sem telur að ekki hefði átt að veita leyfið. Níu mánaða frestur er veittur til að skila inn andmælum frá því að einkaleyfisveitingin var auglýst í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Algengasta kvörtunin er sú að uppfinningin sé ekki ný eða að í henni sé ekkert hugvitsamlegt þrep. Málið er rannsakað af þriggja manna hópi frá Evrópsku einkaleyfastofunni.

Andmæli eru síðasti möguleikinn til að mótmæla evrópsku einkaleyfi í heild sinni á einum vettvangi. Eftir það er einungis hægt að véfengja einkaleyfið fyrir dómstólum í einstökum ríkjum og dómur í einu landi hefur ekki áhrif á einkaleyfi sömu uppfinningar í öðrum löndum. Það er samkeppnisaðilum mikil hvatning að véfengja uppfinningu á meðan andmælaréttur er virkur, þar sem það getur verið miklu dýrara að véfengja einkaleyfi fyrir dómstólum í mörgum ríkjum.

9. þrep  Áfrýjun

Frjálst er að áfrýja öllum ákvörðunum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Sjálfstæðar áfrýjunarnefndir bera ábyrgð á málsmeðferð áfrýjana.