Apríl tölublað ELS-tíðinda er komið út

15/04/2017

Apríl tölublað ELS-tíðinda er komið út.

Í fjórða blaði ELS-tíðinda þetta árið er tilkynnt um skráningu 612 vörumerkja. Af þeim eru 55 í eigu íslenskra aðila og 557 í eigu erlendra aðila. Þar með hafa verið skráð 1.609 vörumerki það sem af er ári samanborið við 946 á sama tímabili í fyrra og er aukningin þannig um 70%. Með skráningu þessara merkja nú fer heildarfjöldi skráðra vörumerkja á Íslandi í fyrsta skipti yfir 60.000.
 
Samtals er tilkynnt um endurnýjun 251 vörumerkis í blaðinu að þessu sinni. Meðalaldur þeirra er um 15 ár. Meðal endurnýjaðra merkja að þessu sinni eru sjö merki sem eru orðin 50 ára eða eldri. Í byrjun febrúar sl. byrjaði Einkaleyfastofan að bjóða upp á rafræna endurnýjun vörumerkja í gegnum heimasíðu stofnunarinnar. Hlutfall rafrænna endurnýjana er þegar orðið tæp 90%.
 
Í blaðinu eru auglýstar þrjár aðgengilegar einkaleyfisumsóknir; tvær í eigu íslenskra aðila en sú þriðja er þýsk. Þá er í blaðinu tilkynnt um veitingu þriggja landsbundinna einkaleyfa; eitt er í eigu Skagans hf. á Akranesi, eitt er bandarískt og það þriðja breskt. Þá er í blaðinu tilkynnt um gildistöku 110 evrópskra einkaleyfa hér á landi og er heildarfjöldi þeirra á árinu þar með 495 samanborið við 337 á sama tíma í fyrra. Fjölgunin er um 47%. Með þessum veitingum fer heildarfjölda einkaleyfa sem eru í gildi á Íslandi í fyrsta skipti yfir 6.000. Umsóknir um viðbótarvernd eru að þessu sinni fimm, allar í eigu erlendra aðila.
Ein landsbundin, erlend hönnunarskráning er auglýst skráð í blaðinu og fjórtán alþjóðlegar. Þá er tilkynnt um endurnýjun fimm landsbundinna skráninga og tíu alþjóðlegra.