Aðstoð við hönnun eða endurhönnun

Hönnun, hvort heldur á útliti eða virkni, er lykilatriði fyrir velgengni vöru á markaði. Þess vegna þarf að hugsa um hönnun uppfinningar allt frá upphafi, möguleikar hennar geta farið forgörðum ef óhöndugleg eða óaðlaðandi hönnun er það fyrsta sem allir aðrir en höfundurinn koma auga á.

Reyndur vöruhönnuður getur aðstoðað ykkur við að fást við framleiðendur eða íhlutasala, hvort sem um frumgerð er að ræða eða þegar varan er komin í fulla framleiðslu. Framleiðendur þurfa nákvæmar tæknilýsingar til að geta búið til hluti og ef þeir þurfa að senda inn fyrirspurnir eða vandamál koma upp þarf einhver með tækniþekkingu að vera til svara.

Ef hönnuðurinn ykkar finnur leiðir til að auka vörugæði eða draga úr framleiðslukostnaði með því að bæta hönnun, getur það vegið upp á móti kostnaðinum af því að ráða fagmann í verkið.

Hins vegar getur hönnuðurinn átt lagalegan rétt á hlut í hugverkaréttindunum ef hann leggur til hugmyndir sem bæta uppfinningu ykkar umtalsvert. Þess vegna ættuð þið að ræða það fyrirfram, hvernig deila eigi nýjum hugverkaréttindum fyrir hugmyndina svo að ekki komi til ágreinings síðar. Það samkomulag ætti að byggja á ráðgjöf sérfræðings á sviði einkaleyfa og þyrfti að festa á blað áður en vinna hefst.

Framleiðsla frumgerða

Ef þið þurfið að fá framleiðanda að frumgerð hugmyndar ykkar skuluð þið leita tilboða víða, vegna þess að framleiðslukostnaður getur verið mjög mismunandi. Smáfyrirtæki eru gjarnan ódýrari og frekar tilbúin til að taka við mjög litlum pöntunum. Stærri fyrirtæki eru yfirleitt ekki ódýrari nema um stórar pantanir sé að ræða, en það getur þess vegna verið gagnlegt að vita hvað framleiðsla vöru ykkar kostar í stærri stíl.

Biðjið um verð sem byggir á þeim nákvæmu teikningum sem þið eða hönnuður ykkar hefur lagt fram og fullvissið ykkur um að teikningarnar sýni nákvæmlega það sem þið óskið eftir.  Jafnvel minni háttar breyting, sem krafist er eftir á, getur hleypt kostnaði upp svo um munar.

Sönnun á gildi hugmyndar

Ef þið getið ekki búið til frumgerð án fjárhagsstuðnings verðið þið að einbeita ykkur að því að sanna gildi hugmyndarinnar. Það þýðir að leggja þarf fram næg gögn til þess að sannfæra fjárfesti eða stofnun, sem styður við nýsköpun, um að leggja a.m.k. fram fé til frumgerðar.

Markmið ykkar, þegar þið leggið fram sönnun á gildi hugmyndar, ætti að vera að gera hverjum sem er erfitt að segja „Þetta sögðuð þið okkur ekki“ eða „Hvaða gögn leggið þið fram sem sanna þetta?” Þið verðið að leggja fram nákvæmar og trúverðugar upplýsingar til stuðnings hverri þeirri tæknilegu fullyrðingu sem fylgir hugmynd ykkar, þar með taldar stærðfræðilegar sannanir, sé þeirra þörf. Þið verðið einnig að leiða sterk rök að því að markaðshorfur hugmyndarinnar séu afbragðsgóðar.

Álit óviðkomandi sérfræðinga sem lagt er fram ásamt sönnun ykkar á gildi hugmyndarinnar getur orðið ykkur að miklu liði. Álit háskólasérfræðings, sem er sérhæfður á ykkar tæknisviði, gæti t.d. verið mögulegt að fá án þess að kosta of miklu til.

Að gera samning við undirverktaka um vöruþróun

Með sönnun á gildi hugmyndarinnar í farteskinu er e.t.v. mögulegt að leita til einhvers fyrirtækis af þeim vaxandi fjölda sem sérhæfir sig í vöruþróun og frumgerðasmíði. Slíkt fyrirræki kynni að vilja að þróa hugmynd ykkar upp á hlut í hugverkaréttindum ykkar. 

Vert getur verið að íhuga þessa lausn ef ljóst er að hugmynd ykkar verður ekki þróuð og jafnvel ekki smíðuð frumgerð án þess að umtalsvert fjármagn og sérfræðiþekking komi til. Hins vegar er líklegt að fyrirtæki, sem fús eru til að deila áhættunni við vöruþróun, taki einungis fyrir hugmyndir með frábæra gróða- og vaxtarmöguleika á dýrum mörkuðum og vera má að þau hafi lítinn áhuga á „venjulegum“ neysluvörum. Þess vegna er algengast að þau hafni flestum þeim hugmyndum sem þeim eru boðnar til þróunar.

Þessum fyrirtækjum skyldi ekki rugla saman við fyrirtæki sem kynna uppfinningar (4. kafli). Eigi að síður þarf að vanda val þeirra. Þið ættuð að byrja á að fá hlutlausa ráðgjöf atvinnuþróunarskrifstofa sem hafa opinbera viðurkenningu. Og þið munuð sannarlega þurfa ítarlega ráðgjöf frá sérfræðingi á sviði einkaleyfa áður en þið gangið til samninga um hlut í hugverkaréttindum ykkar.