Að stofna lið

Þegar uppfinning er á frumstigi vinna uppfinningamenn gjarnan einir að henni. En strax og utanaðkomandi fjármagns er þörf getur verið kostur að uppfinningamaðurinn hafi með sér lið. Það er vegna þess að flestir fjárfestar vilja sjá fjármagn sitt skila sér býsna fljótt til baka. Þeir geta litið svo á að það sé ólíklegt ef uppfinningamaðurinn berst einn í öllum hlutum. Þið verðið að sanna fyrir þeim að þið eigið gott bakland að sækja í til að geta náð skjótum árangri.

Oft nægir að fá einn eða tvo aðra með sér til að stofna trúverðugt lið. Sérhvert lið þarf að hafa til að bera kunnáttu í viðskiptum. Oft vantar upp á það vegna þess að í upphafi var öll áherslan lögð á tækni. Tæknikunnátta getur verið mikilvæg, en í augum flestra fjárfesta skipta einungis viðskiptamöguleikar hugmyndarinnar máli.

Liðsuppsprettur

Hægt er að stofna lið á ýmsa vegu. Dæmi:

  • Veljið úr hópi „fjölskyldu og vina“ fólk sem þið þekkið vel að skapgerð og hæfileikum.
  • Búið til hóp sérfræðinga sem þið getið kallað til þegar þörf krefur, t.d. vöruhönnuð, frumgerðaframleiðanda og endurskoðanda. Þetta eru menn í fullri vinnu þannig að þeir þurfa að fá allar upplýsingar um framgang hugmyndarinnar ef þeir eiga að geta skilað góðu verki með stuttum fyrirvara.
  • Hafið samband við samtök fjárfesta á svæðinu og athugið hvort þið getið valið ykkur lið úr tengslaneti þeirra. Það gætu t.d. verið fagmenn á eftirlaunum sem væru á höttunum eftir nýjum viðfangsefnum.
  • Ef um meiri háttar verkefni er að ræða skuluð þið stofna „sýndarfyrirtæki“ með framkvæmdastjórn, skipaðri fagmönnum, sem ekki verður virk fyrr en fjármagn hefur verið tryggt.

Hvernig sem lið ykkar er sett saman verðið þið að geta sannfært það um að hugmynd ykkar eigi góða viðskiptamöguleika. Takist ykkur það ekki eru litlar líkur á að þið getið sannfært fjárfesta!

Gott er að ákveða hvernig hverjum og einum er launað þegar hagnaður fer að skila sér og að útbúa, með viðeigandi lögfræðilegri ráðgjöf, umbunarsamning sem allir geta skrifað sáttir undir.

Þið ættuð líka að biðja alla liðsmenn um að undirrita leyndarsamning áður en þeir fá aðgang að lykilupplýsingum. (Undanskilja má málaflutningsmenn og lögfræðinga sem bundnir eru trúnaði samkvæmt siða- og starfsreglum sínum.)