Að ná samkomulagi

Þið (og fyrirtækið) verðið alltaf að muna að markmið samningaviðræðna er ekki að sigra heldur að ná samkomulagi.

Ef annar aðilinn vinnur tapar hinn. Sá sem tapar (ekki alltaf uppfinningamaðurinn) gæti þá farið að haga sér þannig að samkomulagið virkaði ekki sem skyldi. Þess vegna er miklu betra, bæði fyrir uppfinningamanninn og fyrirtækið, að miða að útkomu sem báðir aðilar sætta sig við.

Þegar samið er um nytjaleyfi er það yfirleitt gert í tveimur lotum viðræðna, sem báðum lýkur með undirritun samkomulags. Fyrri lotan snýst um greinar samkomulags, hin síðari um lokasamning.

Greinar samkomulags

Þetta eru í raun drög að samkomulagi sem sett eru fram á einföldu máli. Tilgangur þeirra er að leiða fram þær upphæðir, ákvæði og skilyrði sem þið og fyrirtækið getið nokkurn veginn fellt ykkur við.

Áður en þið hefjið samningaviðræður verðið þið að vita hverju þið viljið ná fram í samningnum og vera fær um að réttlæta það. Sá háttur sumra uppfinningamanna að segja einfaldlega „Ekki nóg“ við öllum tilboðum er líklegur til að gera snöggan endi á öllum samningaviðræðum!

Þó yfirleitt gangi best að ræða greinar samkomulags án formlegheita eða löglæðra fulltrúa af beggja hálfu ættuð þið að reiða ykkur á ráðgjöf „bak við tjöldin“ frá sérfræðingi ykkar á sviði einkaleyfa og öðrum löglærðum fulltrúum meðan á viðræðunum stendur. Líka getur verið gagnlegt að aðrir liðsfélagar ykkar séu viðstaddir einhverja stund.

Greinar samkomulags eru ekki endanlegar né lögformlega bindandi þannig að þið megið aldrei láta fyrirtækið hagnýta sér eða nota hugverkaréttindi ykkar á nokkurn hátt áður en lokasamningur er undirritaður.

Hvað ætti skjal um greinar samkomulags að innihalda?

Eftirfarandi listi yfir atriði er aðeins til leiðbeiningar og ekki tæmandi. Hann gefur aðeins til kynna hversu vítt svið umræðuefna þarf að fara yfir. Þið verðið að leita ráðgjafar löglærðs ulltrúa ykkar um hvað eigi og hvað eigi ekki að vera með í ykkar tillögu að skjali um greinar samkomulags.

 • Hvað er það sem verið er að selja nytjaleyfi fyrir?

Gerið lista þar sem þið lýsið öllum hugverkaréttindum sem boðin eru fram.

 • Hversu sértækt er nytjaleyfið?

Mun aðeins nytjaleyfishafinn (fyrirtækið) hafa leyfi til að framleiða samkvæmt því og selja vöruna eða verða í því ákvæði sem leyfa öðrum (þ.m.t. kannski uppfinningamanninum) að framleiða vöruna og selja?

 • Til hvaða landa mun leyfið ná?

Athugið að þið hafið enga stjórn á hlutunum í landi þar sem þið njótið ekki verndar hugverkaréttinda.

 • Inn á hvaða markaði verður farið?

Þið getið kannski samið um aðskilin nytjaleyfi við mismunandi fyrirtæki á mismunandi mörkuðum.

 • Grunnhlutfall þóknunar sem samið er um

 • Hvað má nytjaleyfishafi draga frá söluverðmæti?

Þið verðið að skilgreina hvaða kostnaðarliðir eru frádráttarbærir. Ef það er ekki gert, munu sum fyrirtæki reyna allan hugsanlegan frádrátt til að lækka þóknunargreiðslur ykkar.

 • Greiðslutrygging

Þið þurfið einhvers konar greiðslutryggingu til að hindra fyrirtækið í að útvega sér nytjaleyfi og drolla síðan við að nota það eða leggja það alveg til hliðar.

 • Afturköllunarréttur

Afturkalla má nytjaleyfið ef nytjaleyfishafi stendur ekki skil á samþykktri lágmarksþóknun eða brýtur eitthvert annað umsamið ákvæði.

 • Trúnaðarákvæði

Hér kveður á um að nytjaleyfishafi verði að forðast alla opinbera birtingu.

 • Til hve langs tíma gildir leyfið?

Best getur verið að semja um eitt til fimm ár með endurnýjunarákvæði, þar sem það gerir ykkur auðveldara að losa ykkur frá nytjaleyfishafa sem ekki stendur sig.

 • Hver á endurbætur?

Ef fyrirtækið endurbætir „ykkar“ tækni með tímanum, hver á þá hugverkaréttindin á endurbótunum?

 • Hver tekur á þeim sem brjóta einkaleyfi?

Það getur verið dýrt og slítandi að standa í málaferlum. Athugandi er að sætta sig við lægri þóknun í skiptum fyrir að nytjaleyfishafinn taki á sig þessa ábyrgð.

 • Stöðluð ákvæði

Þau geta verið mörg og snúast flest um rekstrarlega þætti, eins og gjalddaga leyfisgreiðslna, eftirlit með bókhaldi, úrlausn ágreiningsefna o.s.frv.

Ræðið mögulegar afleiðingar hvers ákvæðis við löglærða fulltrúa ykkar eftir því sem viðræðunum vindur fram. Hunsið allan þrýsting um að komast að samkomulagi sem fyrst. Sé eitthvert ákvæði óljóst, heimtið þá að um það sé samið á ný þar til merkingin er ljós. En gleymið ekki að markmið samningaviðræðna er að ná samkomulagi, svo þið skuluð ekki búast við að öll ákvæði verði höfð algerlega þannig að ykkur henti.