Að finna og nálgast fyrirtæki

Ef þið viljið gera nytjaleyfissamning við fyrirtæki verðið þið að:

 • finna réttu fyrirtækin.
 • nálgast þau á réttan hátt.

Það getur verið erfiðara en þið haldið að finna réttu fyrirtækin til að nálgast því stór og vel þekkt fyrirtæki vilja oft minnst með uppfinningamenn hafa. 

Margir uppfinningamenn flaska líka á því að nálgast fyrirtækin of snemma. Þið þurfið að hafa:

 • nákvæma vitneskju um markaðsaðstæður hugmyndar ykkar.
 • fullunna frumgerð í höndunum.
 • sönnunargögn um að hugmynd ykkar hafi viðskiptalega (ekki tæknilega) yfirburði.
 • vel æfða kynningu sem gerir ykkur kleift að grípa hvert tækifæri til að koma þeim sönnunargögnum að.

Stórfyrirtæki

Margir uppfinningamenn nálgast aðeins best þekktu fyrirtækin á þeim markaði sem þeir stefna á. Því miður taka mjög fá stórfyrirtæki utanaðkomandi hugmyndum heils hugar fagnandi. Þegar öll stóru nöfnin á lista uppfinningamannanna eru búin að hafna þeim hafa þeir oft litla hugmynd um hvað gera skuli næst.

Reyndar eru margar ástæður fyrir því að best getur verið að halda sig alveg frá stórfyrirtækjunum.

 • Mörg þeirra eru svo stór að þeim finnst gagnslaust að skipta við einstaklinga og mjög lítil fyrirtæki.
 • Flestum þeirra berast margar hugmyndir óumbeðið sem fá sjaldnast nokkurn forgang og getur oft verið hafnað sjálfkrafa.
 • Flest þeirra una vel við eigin aðferðir til að afla sér nýrra hugmynda.
 • Jafnvel stórfyrirtæki óttast bótakröfur frá uppfinningamönnum sem saka þau um stuld á hugverkaréttindum. Einfaldasta lausnin á þeim vanda er að skipta alls ekki við uppfinningamenn!
 • Því stærri sem fyrirtækin eru, því lengra fram í tímann verða þau að skipuleggja sig. Þeim kann að vera ómögulegt að gera nokkuð með nýja uppfinningu næstu árin, jafnvel þótt hún sé góð.
 • Arðsemin af uppfinningu ykkar eða vöru getur, á þeirra mælikvarða (velta í tugum milljarða króna), verið of lítil.
 • Hlutirnir gerast oft mjög hægt hjá stórfyrirtækjum, svo hægt að uppfinningamaður getur löngu verið orðinn blankur af að bíða.

Smærri fyrirtæki

Þótt endanlegt markmið ykkar sé nytjaleyfissamningur við stórfyrirtæki, getur verið klókt að byrja á smærra fyrirtæki. Smærri fyrirtæki eru oft snarari í snúningum og fljótari til nýsköpunar og yfirleitt er auðveldara að komast að lykilráðamönnum þeirra.

Svo eru lítil fyrirtæki auðvitað miklu fleiri en stór, þannig að það ætti að vera úr langtum fleiri tækifærum að moða.

Ennfremur eru smærri fyrirtæki birgjar flestra stórfyrirtækja þannig að besta leið ykkar inn í stórfyrirtæki kann að vera í gegnum einn af birgjum þeirra.

Þið gætuð fundið ykkur smáfyrirtæki sem sérhæfir sig á tæknisviði ykkar og býr yfir aðföngum sem eru eins og sniðin að þörfum hinnar nýju vöru. (T.d. framleiðslubúnaði sem hentar framleiðslu í tiltölulega smáum stíl.)

Einn ókostur við smærri fyrirtæki er sá að þau eiga minni peninga en stórfyrirtæki. Svo kynni því að fara að þeim litist vel á uppfinningu ykkar og vildu ólm fá nytjaleyfi á henni, en ættu engu auðveldara en þið með að fjármagna þróun hennar.

Þennan vanda má hugsanlega leysa með því að vinna í nánum viðskiptatengslum við lítið fyrirtæki og deila með því byrðum vöruþróunarinnar. Einnig má deila með sér upplýsingum. Uppfinningamaður í samstarfi við smáfyrirtæki getur þannig haft umtalsverðan hagnað af því að vera miklu betur inni í því sem er að gerast, jafnvel þótt framvindan kunni að vera hæg.

Annar ókostur smærri fyrirtækja er sá að þau eru ekki eins vel þekkt. Því getur reynst erfitt að finna þau sem a) hafa einhvern áhuga á uppfinningu ykkar og b) hafa einhverja burði til að gera eitthvað jákvætt við hana.

Lausn á þessum vanda getur verið að fá sér til stuðnings viðskipta- og tækniráðgjafa, sem starfa á vegum sveitarstjórna eða samtaka þeirra og eiga að þekkja vel til smærri og meðalstórra fyrirtækja innan viðskiptalífsins. Þeir þekkja einnig til fjármögnunaráætlana sem verkefni ykkar kynni að geta sótt fjármagn í ef þið tækjuð upp samstarf við smáfyrirtæki.

(Einnig eru til einkafyrirtæki og sjálfstætt starfandi ráðgjafar sem bjóðast til að kynna fyrirtæki hvert fyrir öðru. Þau setja gjarnan upp hátt gjald fyrir þjónustu sína og erfitt getur verið að meta hvort hún sé peninganna virði. Skynsamlegt kann að vera að prófa alla mögulega aðstoð sem fáanleg er í opinbera geiranum fyrst, margt fæst ókeypis.)

Að finna fyrirtæki

Meginreglan er sú, að finna þarf fyrirtæki af réttri stærð, sem þið getið boðið tækifæri annaðhvort til meiri markaðshlutdeildar eða aukins framboðs vörutegunda. Draumafyrirtæki ykkar er kannski stórfyrirtæki, en smærra fyrirtæki, sem hefur metnað til að verða stærra, kann að vera betri valkostur.

Reynið að komast að því hvaða fyrirtæki eru virk á þeim markaði sem þið stefnið inn á og raðið þeim upp eftir vöruframboði, markaðshlutdeild, stærð og veltu. (Gagnasafn um einkaleyfi er góð upplýsingaveita um nöfn fyrirtækja. Einbeitið ykkur að einkaleyfum á tæknisviði sem kemur inn á ykkar. Meðal umsækjendanna gætuð þið fundið mun fleiri virk fyrirtæki en þið vissuð um áður.)

Þegar farið hefur verið yfir, e.t.v. með aðstoð faglegs ráðgjafa, allar fáanlegar upplýsingar um þau, ætti að standa eftir listi með einungis nokkrum fyrirtækjum sem hafa ætti samband við. (Best getur verið að byrja á þeim sem ekki eru of langt í burtu, þá kynni ráðgjafinn að vera fúsari að fylgja ykkur til funda!)

Samt sem áður: Engu skiptir hversu mörg fyrirtæki eru á listanum í upphafi, niðurstaðan getur samt orðið algert áhugaleysi. Ef þau hafna öll sem eitt uppfinningu ykkar, en þið hafið enn mikla trú á henni, gæti tími verið kominn til að hugsa alvarlega um að skipta um aðferð, hætta við nytjaleyfið og hyggja að stofnun fyrirtækis.